Orkumálinn 2024

„Fólk á ekki að þurfa að fara á taugum að redda húsnæði þegar barn er á leiðinni“

„Ef ekki væri fyrir náð og miskunn vinafólks foreldra minna á Akureyri þá værum við bara í hörmulegum málum þegar okkar fyrsta barn á að koma í heiminn,“ segir Guðgeir Einarsson á Egilsstöðum.

Guðgeir og kona hans, Ragna Lind Ríkarðsdóttir, eiga von á barni um miðjan ágúst en sökum þess að meðganga Rögnu flokkast sem áhættumeðganga verður fæðingin að eiga sér stað annaðhvort á Akureyri eða í Reykjavík. Þau mega, með öðrum orðum, ekki eiga barnið á umdæmissjúkrahúsinu í Neskaupstað eins og parið vonaðist eftir.

„Okkur var gert ljóst  að þar sem um áhættumeðgöngu er að ræða og sykursýkismeðgöngu sömuleiðis gætum við ekki átt barnið í fjórðungnum okkar hér fyrir austan. Okkur var gert að fæða barnið fyrir sunnan eða norðan og af tvennu slæmu þá völdum við Akureyri en komumst fljótt að því að þar er enga gistingu að hafa. Hvorki á sjúkrahótelum né heldur í íbúðum stéttarfélaga. Við könnuðum málið hjá einum sjö mismunandi stéttarfélögum en allt var uppbókað.“

Guðgeir segir að meðgangan gangi vel og mikil eftirvænting sé hjá parinu að eignast sitt fyrsta barn. Þessi barningur hafi þó sett skugga á hlutina.

„Okkur langaði bæði að eignast barnið í þeim landsfjórðungi þar sem við búum en í staðinn þurfum við til Akureyrar og burtséð frá húsnæðisvandræðum þá er þetta alls ekki boðleg heilbrigðisþjónusta. Á Akureyri verðum við ein og fjarri vinum og ættingjum sem auðvitað hefur neikvæð andleg áhrif á einhverri mestu gleðistund sem nokkur manneskja getur átt. Mér er mikið til efs að barnshafandi mæður fyrir sunnan myndu sætta sig við svona þjónustu.“

Aðspurður um hvort starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Austurlands hafi ekki lagt þeim lið við að skipuleggja ferðina til Akureyrar segir Guðgeir að sú aðstoð hafi falist í að benda þeim á sjúkrahótel og íbúðir í eigu stéttarfélaga.

„Ég vil ekki lasta starfsfólkið neitt enda ekki þeim að kenna að svona er staðan en þau gáta bara bent okkur á hluti sem við vissum fyrir. Mér finndist einhvern veginn eðlilegt að ef fólk má ekki eiga börn í sínu nærumhverfi og sé beinlínis sent langt í burt í sjálfsagða heilbrigðisþjónustu þá eigi skilyrðislaust að bíða húsnæði á þeim stað. Fólk á ekki að þurfa að fara á taugum við að redda sér húsnæði lengst í burtu í ofanálag við allt annað kringum meðgöngu.“

Sjúkrahúsið í Neskaupstað. Þar er eina fæðingardeildin á Austurlandi en séu konur flokkaðar í áhættumeðgöngu verður fólk að leita annað. Mynd HSA

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.