Orkumálinn 2024

Flutningur höfuðstöðvanna austur illa undirbúinn og án heimildar

Tilkynning um að höfuðstöðvum Vatnajökulsþjóðgarðs hefði verið fundinn staður á Fljótsdalshéraði er eitt gleggsta dæmið um að ekki ríkti traust milli stjórnar þjóðgarðsins og framkvæmdastjóra hans. Framkvæmdastjóri og formaður stjórnar hættu umsvifalaust eftir að úttekt á rekstri og stjórnsýslu lá fyrir í dag.

Í fáum orðum sagt er lestur úttektarinnar, sem unninn var af Capacent ekki fagur. Þess ber meðal annars merki í útlit skýrslunnar þar sem svartur litur er ráðandi. Umhverfis- og umhverfisráðherra fór fram á úttektina eftir að ljóst var að rekstur þjóðgarðsins hefði farið 50% eða 190 milljónir fram úr áætlun í fyrra. Þá sáust samskiptaörðugleikar glögglega í fundargerðum stjórnar og bókaði áheyrnarfulltrúi, með seturétt á stjórnarfundum, að hún væri hreinlega óstarfhæf vegna þeirra.

Í skýrslu Capacent er bent á að ekkert traust hafi ríkt milli framkvæmdastjóra og stjórnar né framkvæmdastjórans og starfsmanna. Mál hafa dregist á langinn hjá stjórn og hún ekki sinnt eftirliti með fjármálum nógu vel, meðal annars vegna þess að starfsmenn hafi ekki útvegað upplýsingar sem beðið hefur verið um. Samhæfing milli svæða er talið ábótavant. Leiga á jörðinni Þverá er margfalt dýrari en áætlað var. Því miður er fátt í lestri skýrslunnar sem kemur þeim á óvart sem fylgst hafa með gangi mála hjá þjóðgarðinum undanfarin ár.

Óheppilegt að hafa fjármálastjóra og bókara sitt hvorum megin á landinu

Flutningur höfuðstöðva Vatnajökulsþjóðgarðs til Fellabæjar er tekinn sem dæmi um að samstöðu og undirbúning hafi skort fyrir aðgerðum og ekkert traust væri milli stjórnar og framkvæmdastjóra.

Í mars í fyrra var tilkynnt um að höfuðstöðvarnar hefðu verið fluttar austur á Hérað. Þar áttu að hafa aðsetur fjármálastjóri og bókari en stjórn veitti framkvæmdastjóra heimild til að ráða í störfum haustið 2016. Tekið var fram að störfin skyldu staðsett á starfsstöðvum þjóðgarðsins.

Í úttektinni er talið heppilegra að stjórnin hefði ákveðið hvar skrifstofan yrði áður en farið var að leita að starfsfólkinu. Fáar umsóknir hafi borist en gengið hafi verið frá ráðningu fjármálastjóra og bókara, húsnæði á leigu fyrir skrifstofuna og fjármálastjórann.

Fjármálastjórinn er nú í Reykjavík sem álitið er óheppilegt. Fjármálastjóri og bókari þyrftu að vera nær hvor öðrum til að ná fram skilvirkni. Skýrsluhöfundar segja mikilvægt að taka ákvörðun um framtíðarstaðsetningu skrifstofunnar því núverandi fyrirkomulag sé óhagkvæmt.

Þá hafi komið í ljós eftir að þáverandi umhverfisráðherra opnaði skrifstofuna að flutningarnir hefðu ekki verið nógu vel undirbúnir og ekki heimild fyrir þeim. Fram að þeim tíma var ekkert bókað um flutninginn í fundargerðum stjórnar.

Í skýrslunni er hvatt til þess að miðlæga skrifstofan verði efld þannig hún geti létt álagi af þjóðgarðsvörðum sem séu fastir í frágangi launamála í stað þess að stýra landvörslu og öðru starfi á heimavelli.

Framkvæmdastjórinn rúinn trausti starfsmanna og stjórnar

Hvatt er til þess að þetta verði gert samhliða ráðningu nýs framkvæmdastjóra. Fáheyrt hlýtur að teljast að í slíkri úttekt sé beinlínis talað um að skipta þurfi um framkvæmdastjóra, þótt legið hafi fyrir að framkvæmdastjórinn, Þórður H. Ólafsson, kæmist á aldur í ár. Hann lét af störfum í dag og tekur Magnús Guðmundsson, sem stýrt hefur Landmælingum í tæp 20 ár, við starfinu tímabundið.

Í skýrslunni er bent á að framkvæmdastjórinn virðist hafa misst trú og traust starfsmanna. Þá segir að samskiptaleysi og trúnaðarbrestur milli framkvæmdastjóra og stjórnar hafi leitt til þess að þjóðgarðurinn hafi skuldbundið sig úr hófi fram.

Formaður og framkvæmdastjóri hvor með sinn lögmanninn í vinnu

Vantraustið kristallast í að stjórnarformaðurinn og framkvæmdastjórinn réðu sitt hvorn lögmanninn til að vinna fyrir þjóðgarðinn. „Slíkt er fáheyrt,“ segir í skýrslunni og bent á að ekki verði séð í fundargerðum stjórnar að hún hafi samþykkt það.

Þá er bent á að allir þurfi að aðilar þurfi að virða valdmörk sín. Sinni framkvæmdastjórinn ekki starfinu eftir vilja stjórnar þurfi að grípa til annarra ráðstafana en að stjórnarformaður gangi í störf hans. Tekin eru dæmi um að stjórnarformaðurinn hafi skrifað undir samkomulag við þrjú ferðafélög sumarið 2016.

Stjórnarformaðurinn, Ármann Höskuldsson, baðst lausnar í dag. Guðrún Áslaug Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú og fyrrum forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands, verður formaður þar til ráðherra hefur skipað nýjan en hún hefur verið varaformaður.

Stjórn sinnti illa eftirliti og fékk léleg gögn

Vakin er athygli á að áætlanagerð og eftirfylgd með fjármálum þjóðgarðsins hafi verið verulega ábótavant. Umfjöllun stjórnar hafi nánast einskorðast við að benda á að úthlutun á fjárlögum dugi ekki fyrir starfinu en minna borið á umræðum um hvernig ætti að breyta starfseminni þannig hún rúmaðist innan fjárlaga. Fjármál hafi aldrei öðlast þann sess á dagskrá stjórnar sem eðlilegt hafi verið.

Stjórn hafi almennt ekki óskað nægilega markvisst eftir upplýsingum um rekstur. Einstaka stjórnarmenn hafi gert það en þá hafi upplýsingarnar verið takmarkaðar eða óaðgengilegar. Þá hafi aðkoma stjórnar að gerð rekstraráætlana verið takmörkuð. Eins hafi þær komið seint fram, ekki verið kynntar þjóðgarðsvörðum eða svæðisráðum fyrr en rekstrarár væri hafið.

Hvatt er til nánara samstarfs við þjóðgarðsverði og svæðisráðin við gerð áætlana. Eins væri æskilegt að framkvæmdastjóri sæti fundi svæðisráða til að auka samhæfingu.

Þó er komið inn á að áætlanagerð fyrir þjóðgarðinn hafi verið erfið vegna gríðarlegrar fjölgunar. Áætlanir þurfi samt að vera til staðar og viðbragðsáætlanir gangi þær ekki eftir. Lagt er til að komið verði upp rekstrarráði sem fundi á milli fundar stjórnar.

Mikilvæg mál tefjast

Ráðinu er ætlað að taka ákvarðanir um rekstur og framkvæmdir með framkvæmdastjóra. „Gestastofa á Kirkjubæjarklaustri rís hægt“ er fyrirsögn einnar síðu úttektarinnar. Þar er fjallað um að ríkissjóður hafi veitt 290 milljónum til byggingar gestastofunnar frá árinu 2015 en aðeins hafi verið framkvæmd fyrir 51 milljón. Þá er bent á að mikilvæg mál hafi tafist á vettvangi stjórnar, meðal annars útfærsla atvinnustefnu.

Framúrkeyrsla þjóðgarðsins síðustu ár skýrist einkum af launakostnaði, 120 milljónir, vegna aukinnar landvörslu sem tilkomin er vegna meiri umferðar. Launaliðurinn er yfir áætlunum á öllum þjóðgarðssvæðunum fjögur. Á austursvæði eru launin 11,8 milljónir eða 25% umfram áætlun. Aðrar tölur af svæðinu eru ekki verulegar í stóra samhenginu.

Mest er framúrkeyrslan á vestursvæði, 99% milljónir í launum og 418% í húsnæði, alls rúmar 50 milljónir. Fasteignakostnaðurinn skýrist aðallega af leigu á jörðinni Þverá, sem sérstaklega er tekin fyrir í úttekt Capacent.

Leigan 1,7 milljón en ekki 500 þúsund

Stjórn heimilaði framkvæmdastjóra að gera leigusamning á stjórnarfundinum sem haldinn var eystra við opnum nýju höfuðstöðvanna í mars í fyrra. Ráðgjafar Capacent segja að stjórnin hafi fjallað um samninginn án þess að hafa tiltækar samningsupphæðir. Í samtölum við stjórnarmenni kom fram að þeir töldu mánaðarlega leigu um hálfa milljón króna.

Sú upphæð átti við síðustu þrjá mánuði ársins 2016 en um áramótin 2017 hækkaði leigugjaldið í 1,7 milljón. Þegar samningurinn var undirritaður lá ekki fyrir afstaða umhverfisráðuneytisins til hans.

Í úttektinni segir að kostnaður vegna skuldbindinga hafi ekki verið á áætlun og ekki hafi legið fyrir formlegt samþykki stjórnar á endanlegum leigusamningi. Ekki hafi heldur verið gerðar neinar ráðstafanir til að fjármagna samninginn.

Ekki er bitið úr nálinni með Þverá. Stjórn hefur tekið málið til umfjöllunar á þessu ári og gert athugasemdir við kostnaðinn. Samkvæmt nýjustu upplýsingum verður leiguverðið 2,2 milljónir á ári, auk viðhaldskrafna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.