Flugfélög velja sjálf hvert þau fara í eldgosi

Ekki eru taldar líkur á að Keflavíkurvöllur yrði lokaður lengi ef eldgos kemur upp á Reykjanesi. Flugrekstraraðilar velja sjálfir hvert þeir beina vélum sínum ef völlurinn lokast. Egilsstaðaflugvöllur er einn þriggja valla hérlendis sem eru til vara fyrir Keflavík.

Í gær var skýrt frá því að vísbendingar væru um kvikuinnskot í nágrenni Fagradalsfjalls á Reykjanesi þar sem tíðir jarðskjálftar hafa verið undanfarna daga. Áhyggjur af eldgosi hafa því aukist þótt ómögulegt sé að segja hvenær það geti brotist upp. Um 20 km eru í loftlínu frá Fagradalsfjalli yfir á Keflavíkurflugvöll, miðstöð alþjóðaflugs hérlendis.

Í svari Isavia við fyrirspurn Austurfréttar um stöðuna segir við eldgos í nágrenninu virkist áætlanir vegna eldgosa og öskufalls. Þegar eldgos kemur upp er afmarkaður 220 km hringur utan um eldstöðina sem lokaður er allri flugumferð. Það sama gildir um flugvöllinn, sem yrði í þessu tilfelli innan hringsins.

Sú lokun ætti ekki að vara lengi, mesta lagi nokkra klukkutíma, þar til fyrir liggur spá Veðurstofunnar um öskusvæði. Þá er lokunarhringurinn tekinn af og flugfélög ákveða sjálf hvort þau vilji fljúga í gegnum spásvæðið. Þrír varaflugvellir eru fyrir Keflavík, í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum. Það er hins vegar undir flugfélögunum komið hvort þau nýti þá eða velji aðra kosti, svo sem fella niður ferðir, lokist Keflavík.

Í svarinu segir að Keflavíkurvöllur verði opinn meðan aðstæður leyfa, en helsti áhrifavaldurinn er öskufall. Almennt virðist jarðvísindafólk telja meiri líkur á hraungosi en öskugosi á Reykjanesi.

Í svarinu kemur fram að völlurinn sjálfur standi vel gagnvart hraunflæði svo litlar líkur séu á að það loki honum. Það gæti hins vegar heft aðkomu að vellinum, svo sem um Reykjanesbraut. Völlurinn er vel búinn varaafli og gagnaflutningsleiðir tvöfaldar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.