Flugfarþegum ráðlagt að mæta klukkustund fyrir brottför

Allir flugfarþegar til og frá Reykjavík í dag og á morgun þurfa að gangast undir vopna- og öryggisleit. Innritun hefst fyrr vegna þessa.

Engin áhrif voru vegna þessa í morgun en ráðstafanir verða í gildi frá klukkan 14 í dag til 16 á morgun. Þær hafa því áhrif á þrjú flug til og frá Egilsstöðum.

Ásgeir Rúnar Harðarson, umdæmisstjóri Isavia á Egilsstaðaflugvelli, segir leitina fara fram eins og um millilandaflug sé að ræða. Lokað er inn í brottfararsal og leitað á farþegum áður en þeir fara þar inn. Ekki þarf að bæta við starfsfólki vegna þessa þar sem fastráðið starfsfólk Isavia hefur hlotið þá þjálfun sem til þarf.

Mælst er til þess að farþegar í þau flug sem um ræðir mæti klukkutíma fyrir brottför. Innritun og leit hefst þá.

Ráðstafanirnar eru gerðar vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík. Til hans er boðað vegna stríðs Rússlands í Úkraínu. Til fundarins mæta leiðtogar Evrópuríkja auk sendifulltrúa fleiri stórvelda og alþjóðastofnana. Þetta er aðeins fjórði fundurinn þessar gerðar haldinn er, sá síðasti var árið 2005 eftir stækkun Evrópusambandsins.

Ísland hefur frá árinu 2004 verið með ótímabundna undanþágu frá vopnaleit í innanlandsflugi. Evrópusambandið veitti hana að undangenginni úttekt. Hún byggist meðal annars á legu landsins og fjarlægð frá stórborgum. Hins vegar er krafist mótvægisaðgerða, svo sem að allir farþegar sýni persónuskilríki.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.