Flugfargjöld niðurgreidd um helming frá 2020

Starfshópur um framtíð innanlandsflugs leggur til að flugfargjöld fyrir íbúa sem búa langt frá höfuðborgarsvæðinu verði niðurgreidd um allt að helming frá árinu 2020. Í fyrstu verður hámark á hversu margar ferðir eru niðurgreiddar.

Þetta kemur fram í tillögum starfshópsins sem skilaði niðurstöðum sínum í dag. Þar segir að há flugfargjöld hefti í dag möguleika þeirra sem búi fjarri höfuðborgarsvæðinu til að nýta sér ýmiss konar þjónustu sem ríkið bjóði þar upp á auk þess að hamla atvinnuuppbyggingu, svo sem ferðaþjónustu.

Bent er á að auka þurfi nýtingu innanlandsflugs. Því þurfi að rjúfa þann vítahring að almenningur nýti sér ekki flugið vegna hversu dýrt það sé og það sé dýrt því fáir nýti sér það. Ekki liggi fyrir hvort markaðurinn sé nógu stór eða á hvaða leiðum þetta sé hægt en réttlætismál sé að jafna aðgengi íbúa á landsbyggðunum.

Til að flugið verði raunhæfur kostur þurfi að koma til umtalsverð lækkun á flugfargjöldum með aðkomu ríkisins. Tvær leiðir séu í boði, hámarksfargjöld á flugleið eða niðurgreiðsla flugfargjalda á markaði. Hópurinn leggur til seinni leiðina þannig að flugið verði skilgreint sem almenningssamgöngur, líkt og í Skotlandi.

Einungis einstaklingar

Lagt er til að hver flugferð verði niðurgreidd um allt að 50% fyrir þá sem hafa lögheimili í 200-300 km akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Nánari útfærsla veltur á eftir aðstæðum á hverjum stað. Einungis einstaklingar eiga rétt á ferðunum, en áætlað að þeir kaupi um þriðjung flugferða.

Miðað við reynslu Skota hefur verið áætlað að kostnaður ríkisins við niðurgreiðsluna kosti 600-800 milljónir króna. Sú tala veltur hins vegar á hversu margir nýta sér tækifærið og er því lagt til að hver einstaklingur fái niðurgreidda að hámarki átta flugleggi, eða fjórar ferðir fram og til baka.

Á því geta orðið frávik, til dæmis hve margir nýta sér niðurgreiðslurnar. Ef þeir 60.000 íbúar sem eiga rétt á þeim nýta þær að fullu yrði kostnaðurinn 1,5 milljarður á ári. Gert er ráð fyrir að niðurgreiðslan verði fjármögnuð úr ríkissjóði.

Niðurgreiðsla markvissari en hámarksgjald

Í skýrslunni er einnig gerð grein fyrir möguleikunum á að setja hámark á flugfargjöld og bent á að sú heimild sé þegar í lögum án þess að hún hafi verið nýtt. Ríkið hafi hins vegar boðið út flug á leiðum sem einkaaðilar hafa ekki treyst sér til að sinna, meðal annars til Vopnafjarðar, og greiðir ríkið alls um 300 milljónir króna árlega fyrir sex flugleiðir.

Í samantekt segir að sú leið gæti eflt atvinnu þar sem hún myndi nýtast öllum jafnt, þar með talið ferðamönnum. Markvissara sé hins vegar að niðurgreiða eingöngu flugfargjöld í þágu heimamanna í persónulegum erindagjörðum. Möguleiki sé hins vegar að blanda aðferðunum saman.

Starfshópurinn var skipaður af samgönguráðherra, upphaflega Jóni Gunnarssyni haustið 2017. Formaður hans var Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, en einnig voru í hópnum Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar og Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður samgönguráðherra.

Til viðræðna við hópinn mættu meðal annars Einar Már Sigurðsson og Jóney Jónsdóttir frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og Ívar Ingimarsson frá hópnum Dýrt innanlandsflug.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar