Fljótsdalshérað: Skuldirnar eru erfiðar

fljotsdalsherad_fjarmalafundur_nov12_0005_web.jpg
Jafnvægi er að nást í rekstri Fljótsdalshéraðs en skuldirnar eru stærsta vandamálið í fjármálum sveitarfélagsins. Skuldirnar munu aukast tímabundið vegna framkvæmda á næsta ári en áætlanir gera ráð fyrir að unnið verði á þeim fram til ársins 2019.

Þetta kom fram á borgarafundi sem haldinn var um fjárhagsáætlun næsta árs í Egilsstaðaskóla á mánudagskvöld. Á næsta ári er gert ráð fyrir fjárfestingum fyrir 869 milljónir króna. Stærstur hluti er tilkominn vegna nýs hjúkrunarheimilis, 637 milljónir.
 
Það verður fjármagnað með skammtímalánum í fyrstu en endurfjármagnað árið 2014. Ríkið leggur til hluta kostnaðarins. Fari verkið fram úr áætlun ber sveitarfélagið skaðann en græðir verði verkið ódýrara.
 
Þá er gert ráð fyrir 182 milljónum króna í framkvæmdir hjá Hitaveitu Egilsstaða og Fella og 50 milljónum í aðrar framkvæmdir sveitarfélagsins. „Þetta eru meiri fjárfestingar en við höfum leyft okkur,“ sagði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri.

„Við erum alveg á mörkunum“

Samkvæmt reglum um fjármál sveitarfélaga getur Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga gripið inn í rekstur sveitarfélaga þar sem skuldir eru meira en 250% af tekjum. Þá þurfi leyfi nefndarinnar fyrir stærri fjárfestingum. Hjá Fljótsdalshéraði er hlutfallið tæp 240% í dag en fer í 250,1% samkvæmt áætlunum á næsta ári. „Við erum alveg á mörkunum.“
 
Í reglunum segir einnig að sveitarfélögum sé skylt að takmarka skuldir við 150%. Niður í það hlutfall ætlar Fljótsdalshérað að komast á árinu 2019. Björn segir að stefnt sé að ná því markmiði „án þess að til komi viðbótarálögur“ eða gjaldkrárhækkanir umfram verðlagsþróun.
 
Hann segir að á kjörtímabilinu hafi verið lögð áhersla á aðhaldssemi í fjárfestingum og agi í eftirfylgni með áætlunum. Þegar á líði skili þær hagræðingar sem gerðar hafi verið í rekstrinum sér. Veltufé frá rekstri hefur margfaldast undanfarin ár og er nú orðið meira en afborganir af skuldum.

Flöggun er alltaf neikvæð

Gert er ráð fyrir að lóðaleigugjöld hækki aftur. Þau voru lækkuð á árinu og við það féll stærsta eign sveitarfélagsins, lóðir, í verði. Það varð til þess að eigið fé þess varð neikvætt og flaggað var á sveitarfélagið í Kauphöllinni. Lóðaleigan hefur lítil áhrif á rekstur sveitarfélagsins og forsvarsmenn þess vonast til að íbúar verði lítið varir við hækkunina.
 
Björn viðurkenndi þó að flöggun sem þessi væri „alltaf neikvæð. Eignir sveitarfélagsins eru ágætar en þær eru samfélagslegar. Þetta eru ekki eignir sem hægt er að fara með á markaðstorg og selt.“
 
Þá er unnið að breytingum á Eignarhaldsfélaginu Fasteign, sem byggði og hélt utan um nokkur af stærri mannvirkjum sveitarfélagsins, svo sem Fellavöll og Egilsstaðaskóla. Félagið hefur átt í miklum fjárhagsvandræðum frá árinu 2008.
 
„Það er uppgjör og breytingar í farvatninu. Við erum fylgjandi þessum breytingum. Þær verða jákvæðar,“ sagði Björn en útskýrði ekki nánar hvers væri að vænta.

Sleppum við sveiflurnar

Björn notaði tækifærið til að fagna þeim vaxtarbroddum sem sést hafa í atvinnulífi sveitarfélagsins. Hann sagði menn stundum hafa kvartað yfir að ekki væri stórt og öflugt fyrirtæki þar sem til dæmis gæti styrkt við samfélags málefni.
 
„Mér finnst styrkur að ver með mörg og lítil fyrirtæki. Það forðar mönnum frá sveiflum. Við höfum upplifað hvað gerist þegar stórt og öflugt fyrirtæki missir fótanna. Það tekur mörg ár fyrir samfélagið að ná sér eftir slíkt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.