Orkumálinn 2024

Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð ganga á eftir lögheimilisskráningum íbúa

braedslan_2011_0044_web.jpg
Misjafnt er hversu hart austfirsk sveitarfélög fylgja því eftir að íbúar þeirra séu skráðir innan þeirra. Stærri sveitarfélög virðast fylgja því fastar eftir heldur en þau minni. Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð hafa að undanförnu gengið sérstaklega á eftir aðsetursskráningum.
 

Flest austfirsku sveitarfélögin senda að hausti út auglýsingu þar sem minnt er á mikilvægi þess að skrá lögheimil sitt rétt fyrir tilskilinn tíma, það er 1. desember hvers árs. Stundum er því fylgt eftir með sérstökum bréfaskriftum til þeirra sem þykir sérstök ástæða til að áminna. Sé málinu fylgt enn fastar eftir er skrifað bréf til Þjóðskrár sem ýtir á eftir skráningunni.

„Við reynum eftir bestu getu að fylgja því eftir með frekari aðgerðum sé vitað um tilfelli sem ekki eru rétt skráð í sveitarfélaginu,“ segir Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps.

Þetta ferli er í samræmi við reglur um aðsetursskipti og lögheimili. „Það sem gerist ef stofnunin fær erindi þessa eðlis, er að senda viðkomandi einstaklingi bréf og biðja hann um að upplýsa um hvar hans rétta lögheimili er en samkvæmt 4. gr. lögheimilislaga er aðeins heimilt að eiga lögheimili á einum stað,“ segir Ástríður Jóhannesdóttir, lögfræðingur hjá Þjóðskrá.

Í lögum um lögheimili og aðsetur segir meðal annars að lögheimili sé sá staður þar sem maður hafi fasta búsetu. Með því er átt við að hann hafi bækistöð sína, dveljist að jafnaði í tómstundum sínum, hafi heimilismuni og sé svefnstaður hans þegar hann sé ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Fljótsdalshéraðs, segir „þó nokkra þeirra“ sem fengu senda skriflega áminningu frá sveitarfélaginu í haust hafa leiðrétt aðsetursskráningu sína. Því hafi síðan verið fylgt áfram eftir.

„Um það hefur verið ítrekað rætt á meðal bæjarfulltrúa að mikilvægt sé að þeir sem hafa búsetu í sveitarfélaginu skrái lögheimili sín í samræmi við fyrirmæli laga. Í þessari umræðu hefur m.a. komið fram sú skoðun að nokkuð sé um ranga lögheimilisskráningu í sveitarfélaginu og jafnvel séu um það meiri brögð hér en í öðrum sveitarfélögum. Eðlilegt er að kjörnir fulltrúar og stjórnendur sveitarfélagsins leggi á það áherslu að þessi mál séu í lagi þar sem umbúnaður og þjónusta sú sem þróuð er innan sveitarfélagsins miðast við búsetufjölda m.a. og því varla ásættanlegt að þeir sem þar velja að búa kjósi ekki að taka þátt í rekstri og uppbyggingu samfélagsins sem þó er ætlast til að geti sinnt þörfum viðkomandi.“

Björn segist reikna með að í flestum tilfellum sé um athugunarleysi að ræða hjá viðkomandi íbúum. 

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, segist sveitarfélagið hafa fylgst sérstaklega með lögheimilisskráningum að undanförnu.

„Þeim einstaklingum sem ekki hafa lögheimili í Fjarðabyggð, en búa í sveitarfélaginu og hafa atvinnu hér, hefur verið sent bréf þar sem þeim er bent á 1.gr. laga um lögheimili. Viðkomandi er einnig send flutningstilkynning og óskað eftir að hann/hún flytji lögheimili til Fjarðabyggðar eða hafi samband við bæjarskrifstofur vegna efni bréfsins.“

Minni sveitarfélögin virðast ekki ganga jafn hart fram eftir þessu. Þar á bæ hafa menn jafnvel talað um „hreppaflutninga“ stærri sveitarfélaganna. Mest hefur verið deilt um einstaklinga sem hafa vinnu í stærri sveitarfélögum og dvelja þar langtímum saman þess vegna en nýta flest tækifæri til að fara „heim.“

Lögreglan hefur meðal annars bent á að lögheimilisskráning sé öryggisatriði, komi eitthvað upp á sé nauðsynlegt að vita hversu margir eigi að vera í hverju húsi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.