Fljótsdalshérað: Bæjarstjórinn veðurtepptur á Vopnafirði

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði, er meðal þeirra sem beðið hafa á Vopnafirði síðan á sunnudag eftir að komast til sín heima. Hann vonast til að geta elt mjólkurbílinn heim í dag. 

bjorn_ingimarsson_0006_web.jpg
„Það fer ekki illa um mig hér. Við höfum verið hjá kunningjafólki okkar. Ég var svo heppinn að vera með tölvuna með mér og hef því getað unnið,“ sagði Björn í samtali við Austurfrétt í dag.

Björn byrjaði helgina á þorrablóti á Egilsstöðum á föstudags en hélt daginn eftir norður á Langanes en hann var áður sveitarstjóri í Langanesbyggð. Hann ætlaði síðan heim á sunnudaginn „en þá tóku veðurguðirnir stjórnina.“

Þegar Austurfrétt heyrði í Birni um kaffileytið í dag sagðist hann hafa heyrt af því að mjólkurbíllinn væri á leið niður Vopnafjarðarheiðina. „Ég vona að ég geti hengt mig í kjölfarið á honum til baka.“

Vegagerðarmenn hafa ekki viljað hleypa ferðamönnum af stað yfir Vopnafjarðarheiði í dag. Nokkrir bílar hafa beðið inn við Hauksstaði í Vesturárdal sem er innsti bær áður en farið er upp á heiðina. „Ég er búinn að fara eina ferð þangað í dag og ég fer ekki aðra fyrr en ég er öruggur með að komast alla leið,“ sagði Björn.

Björn er reyndar ekki sá eini úr yfirstjórn Fljótsdalshéraðs sem ekki hefur getað mætt til vinnu síðustu daga því Guðlaugur Sæbjörnsson, fjármálastjóri sveitarfélagsins hefur verið veðurtepptur eftir þorrablót á Seyðisfirði. Björn segist samt ekki hafa áhyggjur af sveitarfélaginu.

„Ég held að það hljóti að vera mjög afslappað andrúmsloft á bæjarskrifstofunum fyrst starfsfólkið er laust við okkur. Þetta er í góðum höndum Stefáns Bragasonar (skrifstofustjóra) og annarra sem halda vel utan um þetta.“ 

Reynt var að moka Vopnafjarðarheiði um miðjan dag en vegagerðarmenn urðu frá að hverfa vegna veðurs. Því virðist óljóst hvort bæjarstjórinn komist til síns heima eins og hann vonaðist í kvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.