Fljótsdalshreppur alfarið á móti sameiningu

Fljótsdalshreppur hefur sent Alþingi umsögn um frumvarp að lögum um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum tekjustofna sveitarfélaga. Þar kemur fram að Fljótsdalshreppur er alfarið á móti því að sameinast öðru sveitarfélagi.

Í umsögninni segir m.a. að það hafi hvergi komið fram eða verið rökstutt með hvaða hætti íbúar Fljótsdalshrepps geti orðið betur settir varðandi þjónustu með því að sveitarfélagið verði sameinað öðru stærra sveitarfélagi.

„Slík sameining þýddi í raun að Fljótsdælingar misstu af kostunum við þá sérstöðu sem Kárahnjúkavirkjun skapaði en sætu eftir með fórnirnar þ.e. hin neikvæðu umhverfisáhrif á nærumhverfið í Fljótsdalnum sem virkjunin skapaði og sem íbúar voru tilbúnir að taka á sig gegn þeim jákvæðu fjárhagsþáttum sem fylgdu,“ segir í umsögninni,

Ennfremur er bent á að heildartekjur Fljótsdalshrepps af Kárahnjúkavirkjun eru 130 milljónir kr. á ári og í heild séu tekjurnar 200 milljónir kr. á ári eða um 2 milljónir kr. á hvern íbúa. Til samanburðar nema heildartekjur stærsta sveitarfélagsins, Reykjavíkur, um 1,5 milljónum kr. á íbúa.

„Með auknum tekjum hefur sveitarfélagið getað byggt upp og bætt aðstöðu íbúa þess með því að byggja upp fjarskipti með lagningu Ijósleiðara, þriggja fasa rafmagni, bættum vatns- og frárennslislögnum og vegagerð. Má kannski segja að í þessum efnum búi íbúar Fljótsdalshrepps við sambærilegan kost og íbúum í þéttbýli þyki sjálfsagðir,“ segir í umsögninni.

Þá er bent á í umsögninni að hluta þeirrar þjónustu sem sveitarfélagið hefur veitt, hefur það gert í samstarfi með öðrum sveitarfélögum á Austurlandi í gegnum byggðasamlög sem Fljótsdalshreppur hefur tekið þátt í að byggja upp og reka auk samninga við einstök sveitarfélög og við einkaaðila. Ákvæði um slíkt hefur verið í sveitarstjórnarlögum um áratugaskeið og verður hvorki séð af þingsályktunartillögu né frumvarpinu að ætlunin sé að gera breytingar þar á.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.