Fljótsdalshérað komið undir 150% skuldaviðmiðið

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hefur náð lögbundnu viðmiðið um að skuldir séu ekki meira en 150% af tekjum ári fyrr en áætlað var. Bæjarstjórinn segir ánægjulegt að hafa náð settu marki en áfram þurfi að gæta aðhalds í rekstri.

„Þetta er mjög gott mál. Við erum mjög sátt við að áætlanir okkar hafi staðist, það var ekki sjálfgefið, hvað þá að hafa verið ári á undan,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri.

Samkvæmt lögum skulu skuldir sveitarfélaga ekki vera meira en 150% af tekjum þeirra. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga framfylgir reglunum og gerir kröfur til sveitarfélaga um úrbætur fari þau fram yfir.

Fljótsdalshérað var um tíma í hópi skuldsettustu sveitarfélaga landsins, í kjölfar uppbyggingar svo sem skóla á síðasta áratug og síðar hruns. Samkvæmt áætlun sveitarfélagsins átti það að komast undir viðmiðið í ár en samkvæmt ársreikningi síðasta árs er skuldaviðmiðið orðið 142%.

Segja má að undanfarinn áratug hafi nokkur þrýstingur á sveitarfélagið að greiða niður skuldir sínar. Björn segir það ekki alltaf hafa verið auðvelt en gengið vel.

„Það hefur hjálpað töluvert að það voru eignir á bakvið skuldsetninguna og ekki hefur þurft að fara í aðrar fjárfestingar, utan við hjúkrunarheimilið, sem náðist að máta inn í þetta án frekari skuldsetningar. Út af þessu höfum við hins vegar þurft að vera með háa framlegð.

Við höfum borgað skuldir nokkuð hratt niður en áætlanir gera ráð fyrir að 2022 eða 23 verðu veruleg lækkun á afborgunum. Þá eykst það fé sem er til ráðstöfunar til fjárfestinga.

Það hefur meðal annars auðveldað vinnuna hversu mikil samstaða hefur verið meðal kjörinna fulltrúa um aðgerðir. Það hefur ekki verið neinn slagur milli minni- og meirihluta heldur hafa menn komið heilir að verkinu. Eins hafa starfsmennirnir unnið vel að þessu.

Við munum halda áfram að gæta aðhalds. Það má ekki mikið út af bera. Ég hef samt litlar áhyggjur, það er ekkert sem bendir til annars en við höldum áfram að lækka skuldir okkar miðað við áætlun.“

Ríflega 200 milljóna afgangur í fyrra

Rekstraraðkoma sveitarfélagsins á síðasta ári var jákvæð um 209 milljónir, eftir afskriftir og fjármagnsliði. Það er 10 milljónum lakara en gert var ráð fyrir í áætlun en þó 10 milljónum betra en árið áður.

Heildartekjur sveitarfélagsins voru tæpir 4,5 milljarðar, þar af um 4 milljarðar í A-hluta en innan hans eru lögbundin verkefni fjármögnuð með skatttekjum. Rekstrargjöld voru 3,5 milljónir og veltufé frá rekstri 755 milljónir, þar af 520 milljónir í A-hluta.

Langstærsti útgjaldaliðurinn var fræðslu- og uppeldismál, 1,93 milljarðar króna. Heildarskuldir sveitarfélagsins eru um 8 milljarðar króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.