Orkumálinn 2024

Fljótsdalshérað hlýtur jafnlaunavottun

Fljótsdalshérað hefur nú fyrst austfirskra sveitarfélaga fengið jafnlaunavottun. Björn Ingimarsson bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði segist ánægður með að fá staðfestingu á því að jafnræði ríki í launamálum sveitarfélagsins. 

 Lög um jafnlaunavottun voru samþykkt árið 2017 og tóku gildi í byrjun 2018 en þau kveða meðal annars á um að öll fyrirtæki og stofnanir með 250 starfsmenn eða fleiri þurfi að fá vottun á jafnlaunakerfi. 

„Þetta er búið að hafa töluverðan aðdraganda. Áður en þessi lög voru sett létum við vinna fyrir okkur svona jafnlauanaúttekt, ætli það hafi ekki verið 2014 eða 2015. Þá fengum við ráðgjafarfyrirtæki, óháðan aðila, til að gera úttekt. Við vorum mjög sátt við niðurstöðuna þá. Síðan voru þessi lög sett og þá má alveg segja að við höfum verið komin af stað, það alveg hjálpaði til í þessari vinnu,“ segir Björn. 

Áður höfðu þrjú austfirsk fyrirtæki og stofnun fengið jafnlaunavottun en það eru Síldarvinnslan hf, Alcoa Fjarðarál og Heilbrigðisstofnun Austurlands. 

Björn segir vottunina hafa mikla þýðingu fyrir sveitarfélagið. „Það skiptir máli að hafa þessar upplýsingar, að þær liggi fyrir. Við erum sátt við að sjá að þarna hallar ekki á annað kynið. Það er reyndar þannig að ef eitthvað er þá er hlutur kvenna sterkari en það er allt innan skekkjumarka svo við getum bara sagt að kynin standi jafnfætis. Þetta er bara í samræmi við þá stefnu sem við höfum unnið eftir og gott að sjá það.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.