Fleiri og fleiri meðvitaðri um hvaðan maturinn kemur

Fjölbreyttari kröfur neytenda geta skapað tækifæri fyrir austfirska matvælaframleiðendur um leið og þær veita matvöruverslunum aðhald. Búast má við áframhaldandi kröfum um að neytendur viti hvaðan maturinn þeirra kemur.

„Neytendur eru að verða upplýstari, meðvitaðri og kröfuharðari. Fleiri og fleiri vilja vita hvaðan maturinn kemur.

Það er aukin krafa um rekjanleika, merkingar og innihaldslýsingar. Það dugir ekki lengur að segja að þetta sé nógu gott ofan í mannskapinn,“ segir Oddný Anna Björnsdóttir ráðgjafi.

Pólitísk innkaup

Oddný Anna hafði framsögu á opnum fundi atvinnumálanefndar Fljótsdalshéraðs í síðustu viku um matvælaframleiðslu á Héraði.

Hún benti á að neytendur stunduðu orðið „pólitísk innkaup“ þar sem menn greiði atkvæði með kauphegðun sinni á þann hátt að þeir kaupi vörumerki sem hafi á sér gott orðspor en hafni öðrum. Meira sé horft í ýmsar vottanir, til dæmis hvort dýr búi við lausagöngu, en áður. Þróunin sé í þá átt að neytendur horfi meira í gæði en verð.

Að mati Oddnýjar eru neytendur orðnir ágætlega meðvitaðir um innkaup sín í verslunum. Fyrirtækjamarkaðurinn sé hins vegar eftir. „Næsta stóra barátta er að veitingastaðir gefi upp hvaðan maturinn kemur.“

Hún sagði samkeppni af hinu góða því hún gerði verslunarfólki grein fyrir eftir hverju neytendur sæktust. „Það er ekki lengur verið að fást við einsleitan hóp heldur fólki með mismunandi matarræði. Það eru orðin svo mikil vísindi að borða.“ Oddný bætti því við að austfirskir matvælaframleiðendur væru að mörgu leyti vel í stakk búnir til að taka þátt í þessari samkeppni.

REKO afhending á laugardag

Oddný er einnig verkefnastjóri hjá Matarauði Íslands þar sem hún heldur utan um svokallað REKO verkefni. Það snýst um að tengja saman smáframleiðendur og neytendur í gegnum Facebook. Fyrir hvert landssvæði er stofnaður hópur utan um viðskiptin og er einn slíkur fyrir Austurland.

Fyrirfram og ákveðið er hvar og hvenær hægt er að nálgast vöru en framleiðendur setja framboð sitt inn í hópinn, neytendur panta og greiða áður varan er sótt.

Næsta afhending REKO Austurlands er á laugardag. Á Egilstöðum verður afhent fyrir framan Hús handanna milli klukkan 12-13 og á Reyðarfirði í Molanum framan við Krónuna milli 14-15.

Að þessu sinni er meðal annars boðið upp á úrval af grísakjöti, þ.m.t. beikon og skinka, grafið geitakjöt, sjávarsalt, birkisalt og fjallasalt, hot sauce, kartöflur, landnámshænuegg, andaregg, marineraðan framhrygg/bógsteik, grafið ærfille, reykta nautatungu, síróp, sultur og sveppi, skyr, jógúrt og osta, fjallakæfu, ærhakk, marineraðar ærlundir, ærberjasnakk og hakkbollur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar