Fleiri en ein ákæra fyrir tilraun til manndráps

Karlmaður sem gekk berserksgang með skotvopn í íbúagötu á Egilsstöðum í lok ágúst er kærður fyrir tilraunir til manndráps fyrir að hafa ætlað sér að bana húsráðanda og skotið síðan að lögreglumönnum.

Atganginum lauk með því að maðurinn var skotinn af lögreglu og fluttur suður til Reykjavíkur þar sem hann gekkst undir viðamikla aðgerð til að bjarga lífi hans. Það tókst en hann hefur síðan setið í gæsluvarðhaldi.

Ákæra var gefin út á hendur honum um miðjan nóvember og var birt honum í síðustu viku. Maðurinn er ákærður fyrir margvísleg brot, meðal annars: tilraun til manndráps, ógnun við öryggi almennings, vopnalagabrot, brot gegn valdstjórninni og barnalagabrot.

Ætlaði að bana húsráðanda

Í fyrsta lagi er maðurinn ákærður fyrir brot í nánu sambandi og á vopnalögum fyrir að hafa, undir áhrifum áfengis, beint skammbyssu að sambýliskonu sinni á heimili þeirra í Fellabæ.

Annar liður ákærunnar er fyrir tilraun til manndráps, húsbrot, eignaspjöll og vopnalagabrot. Manninum er gefið að sök að hafa ráðist inn í hús fyrrum eiginmanns sambýliskonu sinnar með skammbyssu og haglabyssu með ásetning að bana húsráðanda, sem hafði yfirgefið húsið skömmu áður.

Þar inni hleypti maðurinn af þremur skotum úr haglabyssunni og tveimur úr skammbyssunni. Með því olli hann skemmdum á baðherbergi og í eldhúsi. Einnig skaut hann sex skotum úr skammbyssunni og þremur úr haglabyssunni á tvær bifreiðar í hlaðinu. Þau skemmdu einnig bílskúrshurð.

Þriðji ákæruliðurinn er fyrir brot gegn barnaverndarlögum og á vopnalögum fyrir að hóta tveimur drengjum, 12 og 14 ára, á heimili þeirra með að beina að þeim hlaðinni haglabyssu þar sem þeir sátu í sófa í stofunni. Drengirnir flúðu út um stofudyr og út í skóg.

Skaut að lögregluþjónum

Fjórði liðurinn er fyrir tilraun til manndráps, brot gegn valdstjórninni, eignaspjöll, vopnalagabrot og ógn við öryggi fólks. Maðurinn á að hafa, úr anddyri hússins, skotið þrisvar úr haglabyssunni á bíl í hlaðinu sem tveir lögreglumenn höfðu leitað skjóls á bakvið. Höglin lenti í bílnum og framhlið hússins á móti. Með þessu telst hann með ófyrirleitnum hætti hafa stofnað lífi og heilsu fólks í augljósan háska.

Síðasti liðurinn er fyrir brot gegn valdstjórn og vopnalögum með að hafa gengið að lögreglubíl, þar sem annar lögreglumannanna hafði leitað skjóls, og beint að honum hlaðinni haglabyssu.

Til viðbótar við ákæru héraðssaksóknara hafa konan, húsráðandi og drengirnir höfðað einkamál gegn manninum. Þau fara fram á tæpa níu og hálfa milljón króna auk málskostnaðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.