Orkumálinn 2024

Fjórða kumlið að koma í ljós á Seyðisfirði

Fjórða kumlið kom fram í fornleifauppgreftrinum á Seyðisfirði í dag. Jarðvegurinn á svæðinu verður fínkembdur í leit að gripum.

„Við erum nýkomin niður á þetta kuml. Við erum ekki komin með nema tvo litla járngripi úr því enn,“ segir Ragnheiður Traustadóttir sem stýrir uppgreftrinum.

Rúmar þrjár vikur eru síðan fyrsta kumlið kom í ljós en þar hafði manneskja verið grafin með hesti. Fyrir um tíu dögum kom annað kuml í ljós sunnan við það sem fannst fyrst, Það virðist hafa verið kuml með báti, sem bendir til þess að búið hafi verið um þann sem grafinn var í bát.

Í því kumli hafa að vísu einungis fundist tennur úr manni og bein hests en hins vegar fjöldi gripa, svo sem spjót, taflmaður, dýrindis næla, bátasaumur, fleiri járngripir og minnir gripir. Einnig fundust perlur.

„Við vorum að finna tvær perlur úr því í viðbót. Önnur þeirra er sérlega glæsileg. Við munum sigta allan jarðveg af því frá síðustu viku.“

Í síðustu viku kom þriðja kumlið í ljós. Í því var hundur og hestur og mögulega bátsleifar en það er óstaðfest. Þar hafa enn ekki fundist mannabein. Því kumli var raskað í kringum 1960 þegar rafmagnsstaur var rekinn niður í það.

Fjórða kumlið, sem kom upp í dag, er beint sunnan við það. Talað er um kumlateig þegar mörg kuml, grafir úr heiðnum sið, finnast á sama svæði eins og á Seyðisfirði.

„Ég á ekki von á fleirum kumlum enda er ansi mikið að finna fjögur. Við erum búin að opna allt svæðið og fara gróflega yfir það,“ segir Ragnheiður.

Upphaflega stóð til að uppgreftrinum lyki áður en september gengi í garð en haldið hefur verið áfram vegna þess að stöðugt hafa komið nýjar minjar í ljós. Hægt var að setja aukinn kraft í vinnuna þessa viku.

„Veðráttan hefur torveldað vinnuna á vettvangi að undanförnu en við fengum fjóra starfsmenn í viðbót um síðustu helgi. Það var vel þeginn liðsauki og við erum því átta þessa vikuna til að komast yfir meira.“

Nýjasta kumlið og perla úr annarri gröf. Myndir: Antikva

sfk perla 20211012

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.