Fjóra daga að opna leiðina til Mjóafjarðar

Vegurinn til Mjóafjarðar var opnaður á miðvikudag. Fjóra daga tók að moka heiðina. Snjóskaflarnir eru þar sums staðar rúmir fimm metrar á hæð.

Byrjað var að moka síðasta föstudag og seinni part miðvikudags var kominn einbreið lína í gegn með útskotum.

Í frétt frá Vegagerðinni segir að snjórinn þyki óvenjumikill, mun meiri en síðustu ár. Sums staðar hafi stálið fimm metra hátt.

Unnið verður að því næstu daga að breikka veginn. Fyrst um sinn var vegurinn aðeins jeppafær, í dag er vonast til að hann verði fær fjórhjólabílum og öllum bílum upp úr helginni.

Vegurinn lokaðist í október þegar snjór tók að falla. Hann var mokaður um miðjan þann mánuð fyrir Neyðarlínuna sem þurfti að flytja búnað til að leggja ljósleiðara í Mjóafirði. Mokað var á ný mánaðarmótin nóvember/desember til að koma tækjabúnaði til baka.

Samgönguráðherra nýtti tækifærið til að koma austur og vígja ljósleiðarann. Vegurinn lokaðist skömmu eftir heimsóknina og hefur verið lokaður síðar.

„Ef snjórinn er lítill er stundum mokað einstaka sinnum yfir veturinn. Önnur ár er tíðin slæm og dæmi um að moka hafi þurft heiðina til að koma þangað fjárbílum að hausti,“ er haft eftir Ara B. Guðmundssyni, verkstjóra hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði.

Bátur gengur milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar þegar heiðin er lokuð. Ari er spurður hvort íbúar hafi ekki verið orðnir langeygir eftir að komast landleiðina.

„Jú við fundum fyrir dálitlum þrýstingi. Við erum kannski aðeins seinna á ferðinni miðað við undanfarin ár. Þar spilar inní bæði tíðarfarið og Covid-19.“

Mynd: Vegagerðin


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.