Fjöldi farþega stóð ekki undir kostnaði við að koma vélunum í loftið

Flognar verða þrjár áætlunarferðir á viku milli Egilsstaða og Reykjavíkur næstu tvær vikur eftir að ríkið gerði samning við Air Iceland Connect til að tryggja flugsamgöngur. Framkvæmdastjóri flugfélagsins segir sætanýtingu 10% af því sem hún væri alla jafna á þessum árstíma. Hagkvæmara sé orðið fyrir félagið að geyma vélar sínar á jörðu niðri.

„Fjöldi farþega var orðinn það lítill að hann stóð ekki lengur undir útlögðum kostnaði við flugið, það er eldsneyti og viðhaldskostnaði sem kemur af því að hreyfa vélarnar.Það var ljóst að hann myndi ekki gera það þessar næstu vikur.

Þótt við séum alltaf með ákveðinn fastan kostnað þá var sætanýtingin orðin það lág að hagkvæmara var að hreyfa ekki vélina. Á þessum grunni fórum við í samskipti við ráðuneytið, við leggjum upp með að fá fyrir þessum hreyfingakostnaði,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect.

Tilkynnt var í dag að samgönguráðuneytið hefði samið við flugfélagið um að fljúga að lágmarki þrjár ferðir milli Egilsstaða og Reykjavíkur á meðan núverandi samkomubann varir sem er til 4. maí.

Í þessari viku verður flogið á fimmtudag og föstudag en ekkert um helgina. Næstu tvær vikur verður flogið mánudaga, fimmtudaga og föstudaga. Samkvæmt bókunarvél flugfélagsins er þó ekkert flug í boði mánudaginn 4. maí heldur daglegar ferðir frá og með þriðjudeginum fimmta.

Opið er fyrir að bæta við ferðum ef eftirspurn er fyrir hendi, til dæmis ef koma þarf covid-19 sýnum eða lækningavörum milli landshluta. „Það hefur nánast engin eftirspurn verið á þessum dögum sem við fellum út,“ segir Árni.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að hætta hafi verið á að áætlunarflug í Egilsstaði legðist alfarið af hefði samningurinn ekki verið gerður. Ríkið greiðir 13 milljónir fyrir hann, en frá upphæðinni dregst miðasala flugfélagsins. Gerð var verðkönnun áður en gengið var frá samningnum.

Ferðum á flugleiðinni var fækkað niður í eina á dag seinni hluta marsmánaðar. Árni segir sætanýtingu og farþega fjölda fjarri því sem hann ætti að vera á þessum árstíma. „Alla jafna værum við með 2-3 flug dag á leiðinni og 70% sætanýtingu en hún hefur verið 30-40% í þessum ferðum sem við höfum farið. Við erum að flytja um 10% þeirra farþega sem við ættum að vera gera á milli Egilsstaða og Reykjavíkur um þetta leyti.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.