Fjögurra vikna gæsluvarðhald fyrir tilraun til manndráps

Ríflega þrítugur karlmaður hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald fyrir tilraun til manndráps í Neskaupstað í nótt. Sá sem fyrir árásinni varð er kominn af gjörgæsludeild.

Meintur gerandi kom fyrir dómara á fjórða tímanum í dag. Hann var handtekinn upp úr miðnætti í nótt, grunaður um að hafa ráðist að öðrum karlmanni um þrítugt og stungið hann með hnífi.

Atvikið átti sér stað á heimili þess slasaða. Sá mun hafa náð að komast til nágranna sinna eftir hjálp. Hann var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur með lífshættulega áverka. Samkvæmt upplýsingum sem fjölskylda mannsins hefur sent frá sér er hann á batavegi og kominn af gjörgæsludeild. Hann gekkst undir aðgerð vegna áverkanna fyrr í dag.

Sakamál er höfðað á hendur meintum geranda án þeim forsendum að hann hafi gerst sekur um tilraun til manndráps. Saksóknari fór fram á hámarks lengd gæsluvarðhalds, fjórar vikur. Aðalkrafa hans byggði á því að sterkur grunur þar sem sterkur grunur léki á að maðurinn hefði farið afbrot sem varðað gæti 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi að varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Til vara var farið fram á varðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna og þess að verja sakborning eða aðra fyrir frekari árásum.

Sem fyrr segir féllst dómari við héraðsdóm Austurlands á kröfu um fjögurra vikna gæsluvarðhald á sjötta tímanum í kvöld.

Í lokaritgerð Kristínar Klöru Jóhannesdóttur í BA-námi í lögfræði frá árinu 2014 segir að munurinn á því hvort sakfellt sé fyrir tilraun til manndráps eða stórfellda líkamsárás byggi á því hvort læknar telji áverka augljóslega lífshættulega, til dæmis hnífsstungur í brjósthol eða háls. Samkvæmt afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra var ein tilraun til manndráps framin á Austurlandi á árabilinu 2001-2018, en það var árið 2011. Að jafnaði eru framin 3-5 slík brot á landsvísu á ári. Í almennum hegningarlögum er lágmarksrefsing fyrir manndráp fimm ár, en dómar fyrir tilraunir til manndráps hafa síðustu misseri verið rúm fimm ár.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu miðar rannsókn málsins vel. Rannsókn á vettvangi er í gangi og til aðstoðar við hana komu tæknimenn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu austur síðdegis. Þá hafa í dag verið teknar skýrslur af öðru fólki sem veitt getur upplýsingar um málið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.