Fjölmenn mótmæli- púað á Þuríði Backmann

ImageMikil fjöldi fólks var saman kominn til að mótmæla fyrirhuguðum niðurskurði Heilbrigðistofnunnar Austurlands. Mótmælin fóru fram á Norðfirði, Vopnafirði og á Seyðisfirði þar sem mörg hundruð manns mynduðu stórt faðmlag utan um sjúkrastofnanir Austurlands.
Eftir mótmælin komu um 400 manns saman í íþróttahúsinu á Egilsstöðum þar sem haldin var borgarafundur á vegum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Fjórir þingmenn kjördæmisins mættu á fundinn þau Jónína Rós Guðmundsdóttir, Höskuldur Þórhallsson, Kristján Þór Júlíusson og Þuríður Backman. Valdimar O. Hermannsson, formaður SSA, setti fundinn og fól Birni Ingimarssyni, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs.

Mikil fjöldi fólks var saman kominn til að mótmæla fyrirhuguðum niðurskurði Heilbrigðistofnunnar Austurlands. Mótmælin fóru fram á Norðfirði, Vopnafirði og á Seyðisfirði þar sem mörg hundruð manns mynduðu stórt faðmlag utan um sjúkrastofnanir Austurlands.

Eftir mótmælin komu um 400 manns saman í íþróttahúsinu á Egilsstöðum þar sem haldin var borgarafundur á vegum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Fjórir þingmenn kjördæmisins mættu á fundinn þau Jónína Rós Guðmundsdóttir, Höskuldur Þórhallsson, Kristján Þór Júlíusson og Þuríður Backman. Valdimar O. Hermannsson, formaður SSA, setti fundinn og fól Birni Ingimarssyni, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs.

Framsögumenn á fundinum voru þau; Sigrún Blöndal, oddviti Héraðslistans, fyrir hönd sveitarstjórnarmanna, Gunnþór Björn Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, fyrir hönd atvinnurekanda, Björn Magnússon yfirlæknir á Neskaupstað, fyrir hönd heilbrigðisstarfsmanna. Þingmenn kjördæmisins fluttu ræðu á fundinum áður en orðið var gefið laust í fundarsal.

Þuríður Backman, þingmaður vinstri grænna, fór yfir mikilvægi þess að ná jöfnuði ríkisfjármálunum fyrir 2013. Þuríður sagði að það kæmi fram í fjárlagafrumvarpinu að heilbrigðisráðherra hefði rétt á því að endurskoða niðurskurðinn í heilbrigðisgeiranum. Þá sagði hún mikilvægt að hefja sig upp úr umræðum sem einkenndust af upphrópunartón og að það væri mikilvægt að skoða fjárlögin í stærra samhengi m.t.t. samdráttar og skuldastöðu ríkissjóðs. Hún sagði að finna ætti nýjan grunn til að byggja á til framtíðar. Fundargestir púuðu á þingmanninn við lok ræðunnar.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður framsóknarflokksins, sagðist ætla að berjast með oddi og egg gegn því að þetta frumvarp næði fram að ganga. Hann sagðist hafa saknað þess að Þuríður tæki afstöðu til frumvarpsins í ræðu sinni en í frumvarpinu kæmi fram bylting í heilbrigðiskerfinu að hans mati og að hann væri andsnúin því að einungis ætti að reka  sjúkrahús á tveim stöðum í landinu, Akureyri og Reykjavík. Hann sagði að „við værum hér ekki að tala um byggðaröskun heldur hugsanlega byggðaeyðingu“.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingmaður samfylkingarinnar, lýsti undrun sinni á vinnubrögðum fjárlaganefndar og sagði þau úreld. Fjárlagafrumvarpið kæmi öllum í opna skjöldu og það væri ekki stefnumörkunarvinna sem hún gæti stutt né sætt sig við. Það er gjörsamlega óásættanlegt að það ætti að gjörbreyta heilbrigðiskerfinu á landsbyggðinni og aðlaga það að þeirri stefnumótunarvinnu sem hefði farið fram á skrifborðum í Reykjavík. Jónína Rós sagði að hún muni segja „nei“ við afgreiðslu á frumvarpinu eins og það lítur út í dag „það má nú fyrr rota en dauðrota“ sagði hún varðandi fjárlagafrumvarpið.   

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður sjálfstæðisflokksins, sagðist ekki enn trúa því sem kæmi fram í fjárlagafrumvarpinu. „Af hverju má ekki skoða inneign ríkisins og sveitarfélaga í séreignarsjóðum?“ sagði Kristján og bendi á þar mætti ná í fé og raða hlutunum niður með sanngjarnari og mýkri hætti. „Það er enginn meirihlutastuðningur við þær tillögur sem hér liggja fyrir og það er gott. Einhendum okkur í það að stilla saman strengi óháð því hvar í flokki við erum. Fimm af ellefu þingmönnum í fjárlaganefnd Alþingis eru þingmenn Norðausturskjördæmis. Formaður og varaformaður heilbrigðisnefndar Alþingis eru þau Þuríður Backman og Jónína Rós, stillum saman strengi okkar og rústum fjárlagafrumvarpinu“ sagði Kristján að lokum.

Eftir ræður þingmanna tóku fundargestir til máls og það mátti greina á spurningum þeirra að þeim var heitt í hamsi. Fundinum lauk með því að samþykkt var einróma ályktun almenns borgarafundar á Egilsstöðum. Ályktunin er svohljóðandi:

MÓTMÆLI ALMENNS BORGARAFUNDAR Á AUSTURLANDI VEGNA ÁFORMA UM NIÐURSKURÐ Í HEILBRIGÐISÞJÓNUSTU

Almennur borgarafundur, haldinn á Egilsstöðum 10. okt. 2010, mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til heilbrigðisstofnana á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Skv. framlögðum fjárlögum fyrir 2011 hefur verið boðaður um 22 %  niðurskurður á heildarframlögum til HSA, sem rekur starfsstöðvar í 11 byggðarlögum. Auk þess er fyrirhugaður 52 % niðurskurður á sjúkrasviði stofnunarinnar. Áformin eru ekkert annað en aðför að heilbrigðisþjónustunni á starfssvæði HSA,  afhjúpar virðingarleysi heilbrigðisyfirvalda til íbúa í fjórðungnum og skerðir velferðarþjónustu á svæðinu.
            
Ekki liggur fyrir  mat á samfélagslegum áhrifum, sem boðaður niðurskurður mun hafa í för með sér á Austurlandi. Vafalaust munu áformin leiða til aukins atvinnuleysis með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð og íbúafækkunar með tilheyrandi tekjutapi fyrir sveitarsjóði. Þá er ótalinn sá öryggisþáttur sem skert aðgengi að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð er, að ógleymdum auknum kostnaði íbúanna við að sækja þjónustu um lengri veg.

Borgarafundurinn átelur stjórnvöld fyrir samráðsleysi við ákvörðun um áformaða grundvallarbreytingu á heilbrigðisþjónustu í landshlutanum og gerir þá kröfu að heilbrigðisráðherra sjái til þess að horfið verði frá boðuðum áformum. Jafnframt er heitið á alþingismenn NA - kjördæmis að beita sér fyrir að endurskoðun á fjárheimildum til HSA, eins og þau liggja nú fyrir, þannig að ekki verði gengið lengra í niðurskurði hér, en í málaflokknum í heild.

GREINARGERÐ:

(Tvær samþykktir aðalfundar SSA 24. og 25. sept. 2010)

Ályktun um heilbrigðisþjónustu.
44. aðalfundur SSA haldinn á Breiðdalsvík  24. og 25. september 2010, skorar á yfirvöld heilbrigðis- og fjármála, og ríkisstjórn Íslands, að standa vörð um þá heilbrigðisþjónustu sem nú er veitt í landsfjórðungnum.  Fundurinn leggur áherslu á að haldið verði áfram að efla og styrkja heilbrigðiskerfið á Austurlandi sem einn mikilvægasta grunnþátt nauðsynlegrar þjónustu við íbúa á svæðinu, ekki síst  á jaðarsvæðum þar sem samgöngur eru erfiðar.  Íbúar Austurlands eiga skýlausan  rétt, samkvæmt lögum á góðu aðgengi að úrvals heilbrigðisþjónustu, eins og aðrir landsmenn.

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA)
44. aðalfundur SSA haldinn á Breiðdalsvík  24. og 25. september 2009 skorar á Alþingi, fjárveitingavaldið og yfirvöld heilbrigðismála að sjá til þess að fjárframlög til stofnunarinnar taki mið af raunverulegri starfsemi hennar og getu. Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA), hefur þrátt fyrir niðurskurð á fjárframlögum á síðustu misserum tekist að halda uppi nauðsynlegri þjónustu, en vegna takmarkanna á samnýtingu starfsfólks og aðstöðu eiga heilbrigðisstofnanir í dreifbýli erfiðara með að svara kalli um hagræðingu og lækkun útgjalda en sambærilegar  stofnanir sem starfa í þéttbýli. Heilbrigðisstofnun Austurlands  hefur á undanförnum árum, með aukinni tækjavæðingu, getu og tiltrú á stofnunina, orðið færari um að sinna stærri hluta þeirrar heilbrigðisþjónustu sem áður var sinnt á höfuðborgarsvæðinu, með tilheyrandi tilkostnaði ríkisins og þeirra íbúa sem á þjónustunni þurfa að halda, enda er það þjóðhagslega hagkvæmt  að sem mest af heilbrigðisþjónustunni sé veitt í nærumhverfi með staðbundinni grunnþjónustu og farandsérfræðingum.

 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.