Fjarkennsla flækist ekki fyrir góðu nemendunum

Skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum segir nemendur og kennara við skólann vera að ná tökum á fjarkennslufyrirkomulagi sem komið var á eftir að skólanum var lokað til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar. Úrræði eru í boði fyrir nemendur sem standa höllum fæti.

„Þetta er ekkert mál fyrir góðu nemendurna en hjá þeim sem eru kvíðnir fyrir eykur þetta á óöryggið. Við reynum að skanna fljótt og vel hverjir eru komnir í gang og hverjir ekki og þá hringja kennarar jafnvel eftir fólki.

Við erum hrædd um brottfall þeirra sem eiga sögu um lélega mætingu. Þeir vakna ekki frekar til að mæta í skólann heima hjá sér,“ segir Árni Ólason, skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum.

Skólameistarar funduðu í gær með menntamálaráðuneytinu um aðgerðir til að styðja við þá nemendur sem veikast standa. Nemendaþjónusta ME hefur verið á vaktinni sem endranær og segir Árni marga hafa nýtt sér það að senda tölvupóst eða hringja til að tala. Þá eru í boði viðtöl í gegnum fjarfundakerfi auk þess sem til skoðunar hjá ráðuneytinu að hægt verði að bjóða upp á einstaklingsviðtöl.

Kennarar og nemendur við ME eru ekki óvanir fjarkennslukerfi en skólinn hefur verið haldið úti öflugu fjarnámi síðustu ár. Allt námsefni síðustu misseri hefur verið tiltækt á kennsluvef en breytingin nú er sú að nemendur mæta ekki í eiginlega tíma. Þar eru þó í boði netstofur, líkt og í Verkmenntaskóla Austurlands og er lögð áhersla á að nemendur mæti í minnst þrjá tíma í hverjum áfanga í viku. Árni segir útfærsluna þó mismunandi eftir kennurum og áföngum.

Merkt er við mætingu til að fylgjast með framgangi nemenda og reynt að veita þeim stuðning eftir sem við á. „Þetta er minni viðbót en í mörgum öðrum skólum. Við höfum samt ekki verið mikið í þessum útsendingum til þessa. Við viljum halda í rútínu og hvatninguna sem fylgir því að hittast. Þetta hefur farið ágætlega af stað. Þetta er mikill lærdómur fyrir kennarana en mun gagnast þeim öllum.“ Þá er hverri önn í ME skipt í tvennt og var fyrri spönninni nýlokið þegar samkomubannið tók gildi. Árni segir það hafa mildað höggið.

Hann telur að sú röskun sem nú verður á skólastarfi eigi ekki að koma niður á þeim nemendum sem hyggja á útskrift í vor. „Það á að vera hægt að klára alla áfanga á réttum tíma. Það kemur svo í ljóst hvernig fer með útskriftarathöfnina sjálfa.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.