Fjárfestar sýna Austurlandi vaxandi áhuga

„Undirtektirnar hafa verið mjög góðar og við þegar í sambandi við aðila sem vilja vita meira um verkefnið og Austurland allt,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Austurbrú stóð fyrir fjölmennum fundi fyrir fjarfesta fyrr í þessum mánuði í Reykjavík en hjá Austurbrú er mikið unnið að því að koma Austurlandi og tækifærunum þar á framfæri við áhugasama hvort sem það eru hreinir og beinir ferðamenn, fagfjárfestar eða aðrir. Íslandsstofa og Ferðamálastofa komu að fundinum auk þess sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Jón Björn Hákonarson, flutti þar erindi auk Jónu sjálfrar.

Jóna var afar ánægð með viðtökurnar við kynningunni og ekki síður áhuga og fyrirspurnum í kjölfarið.

„Við urðum fljótt vör við áhuga eftir fundinn og það bæði frá innlendum og erlendum aðilum. Margir þeirra tengjast ferðaþjónustu en aðilar í öðrum greinum hafa líka verið í sambandi. Þar hjálpar að við unnum grunn að áfangastaðavinnunni á ensku þannig að við eigum mikið efni sem áhugasamir geta kynnt sér beint. Þar hægt að fá upplýsingar um ferlið allt sem og nauðsynlegar upplýsingar um svæðið allt. Fjárfestarferlið gengur mikið út á að komast í sem bestar upplýsingar og þar stöndum við vel. Fólk getur hvort sem haft samband beint við okkur hér nú eða verið vísað áfram gegnum stofnanir eins og Íslandsstofu.“

Orð eru til alls fyrst segir Jóna og bendir á að í þessu hafi jákvæð áhrif að næsta sumar hefjist reglubundnar áætlunarferðir til og frá Egilsstöðum með þýska flugfélaginu Condor. Ýmsir sjái sóknarfæri vegna þess.

Aðspurð um hvort heimamenn komist ekki að borðinu ef fjárfestar ákveða að ganga í verkefni á Austurlandi segir Jóna það tvímælalaust þurfa til.

„Það er enginn fjárfestir að festa fé hér án þess að vera í sambandi og samvinnu við heimamenn hér á svæðinu. Þá voru þarna á fundinum líka aðilar héðan af svæðinu. Aðilar sem hafa farið í stór verkefni eins og uppbygginguna á Vök Baths og þekkja vel til. Það er ekki síst þetta samtal milli fjárfesta og heimamanna sem er nauðsyn til að allir hafi hag af ef einhver starfsemi verður byggð upp á svæðinu í framtíðinni. Við þurfum fleiri stoðir undir atvinnulífið hér og fleira fólk með.“

Flugvöllurinn á Egilsstöðum fær fyrsta sinni skipulagðar áætlunarferðir til Evrópu næsta sumarið og sú staðreynd hefur meðal annars kveikt áhuga fjárfesta á Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.