Skip to main content
Mynd úr safni.

Fjarðarheiði lokað eftir að bílar fóru út af

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. okt 2025 11:25Uppfært 22. okt 2025 11:28

Veginum yfir Fjarðarheiði var lokað rétt fyrir klukkan tíu í morgun eftir að bílar lentu í vanda þar vegna slæmra akstursskilyrða. Óvíst er um opnun hennar í dag.

„Það er afar dimmt á heiðinni og mjög slæm akstursskilyrði“, segir Ársæll Örn Heiðberg, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Fellabæ.

Moksturstæki var á heiðinni í morgun en eftir að nokkrir bílar höfðu farið út af veginum var ákveðið að loka leiðinni til að forðast frekari vandræði. Þau hafa helst verið Egilsstaðamegin. Aðstoð er á leið til fólks sem lent hefur í erfiðleikum.

Gul viðvörun er í gildi á öllu Austurlandi vegna norðaustanhríðar. Samkvæmt veðurspám á að draga úr úrkomu eftir hádegið en á móti gæti bætt í vind.

Aðspurður svarar Ársæll að of snemmt sé að slá nokkru föstu um hvort hægt verði að opna heiðina í dag. Staðan verði metin um klukkan 14 en hætt sé við erfiðleikum vegna kófs.

Norræna er í höfn á Seyðisfirði og var farþegum hennar strax í gær ráðlagt að halda ekki á sumardekkjum á heiðina. Ferjan fer ekki þaðan aftur fyrr en klukkan 20:00 á morgun, þannig farþegar ættu að hafa nægt tækifæri til að komast yfir á morgun þegar veðrið verður gengið niður.