Fjarðabyggð: Dregur heldur í sundur í öðrum tölum

Sjálfstæðisflokkurinn hefur aukið forskot sitt í Fjarðabyggð milli fyrstu og annarra talna. Meira vantar upp á að Fjarðalistinn nái inn sínum þriðja fulltrúa. Meirihlutinn heldur samt.

Þótt tölurnar breytist breytir það ekki meginlínunum. Sjálfstæðisflokkur bætir við sig tveimur fulltrúum og Framsóknarflokkur einum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð nær ekki fulltrúa. Miðflokkurinn, sem fékk fulltrúa fyrir fjórum árum, bauð ekki fram aftur.

Heildarkjörsókn í Fjarðabyggð var 63,6%. Á kjörskrá eru 3.683 og alls greiddu 2.344 atkvæði. Í bæjarstjórnarkosningunum 2018 var kjörsókn 64,4%

Aðrar tölur komu frá yfirkjörstjórn Fjarðabyggðar rétt eftir miðnætti í kvöld. Talin hafa verið 1959 atkvæði eða 83,6%. Auðir og ógildir seðlar eru 55.

Framsóknarflokkur: 601 atkvæði, 31,6%, 3 fulltrúar.
Sjálfstæðisflokkur: 715 atkvæði, 37,6%, 4 fulltrúar.
Fjarðalisti: 475 atkvæði, 24,9%, 2 fulltrúar.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð: 113 atkvæði, 5,7%.

Samkvæmt upplýsingum yfirkjörstjórnar Fjarðabyggðar vantar núna 62 atkvæði upp á að Arndís Bára Pétursdóttir, þriðji fulltrúi Fjarðalista, felli Jóhönnu Sigfúsdóttur, fjórða fulltrúa Sjálfstæðisflokks en munurinn var mun minni í fyrstu tölum. Þá er Anna Margrét Arnarsdóttir, oddviti VG, orðin næst í röðinni, vantar 66 atkævði til að komast inn.

Ekki liggur enn fyrir hvenær lokatölur koma en síðustu kjörkassarnir úr Neskaupstað og frá Reyðarfirði voru ekki komnir á talningarstað á Eskifirði um miðnætti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.