Orkumálinn 2024

Fjarðaál: Starfsfólk sem getur unnið heima geri það

Alcoa Fjarðaál hefur gefið starfsfólki sínu tilmæli um að þeir sem geta unnið heiman frá sér geri það frá og með morgundeginum. Breytingar verða einnig á fyrirkomulagi mötuneytis fyrirtækisins.

„Við erum að virkja aðgerðaáætlun til að draga úr líkum á Covid-19 smiti innan vinnustaðarins. Það gerum við til að vernda heilsu starfsfólks og tryggja að við getum haldið starfseminni gangandi,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Fjarðaáls.

Aðgerðirnar sem starfsfólki var tilkynnt um í dag eru annar liðurinn í viðbragðsáætlun fyrirtækisins. Þær fyrstu voru að ítreka tilmæli embættis landlæknis um hreinlæti og handþvott samhliða því að auka þrif. Þá var árshátíðum fyrirtækisins, sem halda átti í mars, frestað í síðustu viku.

Nú er bætt í en frá og með morgundeginum er starfsfólk sem getur unnið heiman frá sér hvatt til að færa starfsstöðvar sínar þangað.

Eins verða gerðar breytingar á mötuneyti Fjarðaáls. Verulega mun draga úr fjöldanum sem borðar þar þar sem dagvinnufólkið vinnur heiman frá sér, en margir aðrir fá matinn sendan á sína starfsstöð. Þá verða starfsmönnum afhent hnífapör og skammtað á diska, í stað þess að standa í röð og gera það sjálfir.

Dagmar segir aðgerðirnar ákveðnar í samræmi við fyrirtækjalækni álversins. Enginn grunur er enn um smit á álverslóðinni.

„Við hlustum einsog aðrir á fyrirmæli landlæknis. Við teljum okkur bera ábyrgð sem stærsti vinnustaður Austurlands og því sé það okkar að ganga á undan með góðu fordæmi. Aðgerðir okkar verða metnar frá degi til dags eftir framvindu mála og aðlagaðar að því sem er í gangi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.