Fjarðaál hrósar starfsmönnum Landsnets

Stjórnendur Alcoa Fjarðaáls hafa komið á framfæri þökkum til starfsmanna Landsnets fyrir mikla vinnu við að koma Fljótsdalslínu 4, sem flytur rafmagn úr Fljótsdalsstöð í álverið, í gagnið fyrir jól.

Starfsmenn Landsnets lögðu nótt við nýtan dag við að koma línunni í rekstur í lok síðustu viku og tókst það aðfaranótt síðasta laugardags. Skemmdir urðu á línunni eftir ísingarveður undanfarinna vikna.

Í tilkynningu frá Fjarðaáli er starfsmönnum Landsnets færðar þakkir fyrir „fumlaus vinnubrögð“ við að koma línunni „með öruggum og skjótum hætti í gagnið og tryggja þannig afhendingaröryggi á raforku til álversins við Reyðarfjörð.

Landsnet einhenti sér í verkefnið við erfiðar aðstæður og tryggði mannskap, tæki og verktaka til að koma línunni aftur í rekstur á eins stuttum tíma og mögulegt var án þess þó að slá af kröfum um öryggi við krefjandi veðuraðstæður. Á sama tíma var mikið eftirlit með Fljótsdalslínu 3 til að tryggja að ísing myndi ekki trufla rekstur hennar á meðan lína 4 var úti.

Afhendingaröryggi raforku er afar mikilvægt álverinu sem stólar á að missa ekki niður straum en slík truflun hefur áhrif á stöðugleika og framleiðslu.“

Þá fóru verktakar af stað og hreinsuðu ísingu af Fljótsdalslínu 2 á Þorláksmessu, en hún flytur rafmagn fyrir almenning. Hún leysti út daginn áður, trúlega vegna ísingar, en það orsakaði ekki rafmagnsleysi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.