Orkumálinn 2024

Fjarðabyggð ósátt við viðhaldið á veginum yfir Oddsskarð

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur lýst yfir óánægju sinni með viðhald Vegagerðarinnar á veginum yfir Oddsskarð sem stöðugt sígur. Honum er haldið í horfinu með malarofaníburði og til stendur að reyna að klæða kaflana í byrjun sumars.


Jarðsig hefur lengi verið vandamál á veginum yfir Oddsskarð en segja má að hann hafi aldrei komist aftur í samt lag eftir töluvert jarðskrið í nóvember 2015. Þá flæddi yfir veginn og klæðningin skemmdist.

Í bréfi sem undirritað er af bæjarstjóra Fjarðabyggðar til Vegagerðarinnar, í framhaldi af bókun bæjarráðs, segir hreint út að sveitarfélagið sé „ekki sátt við viðhald Vegagerðarinnar á Norðfjarðarvegi“ og á það hafi verið bent „nokkuð ítrekað“.

Bæjaryfirvöld geri sér grein fyrir að ekki sé hægt að ráðast í fullnægjandi viðgerð á þessum árstíma en vegurinn þurfi að vera í ásættanlegu lagi þannig ekki sé hætta á ferðum fyrir vegfarendur.

Mildur vetur góður fyrir vetrarfærð en ekki sigkaflana

Í svari Sveins Sveinssonar, svæðisstjóra Vegagerðarinnar á Austurlandi, er lýst skilningi á áhyggjum og afstöðu sveitarfélagsins. Þótt tíðarfarið í vetur hafi verið hagstætt fyrir vetrarfærð hafi það gert erfitt fyrir að halda vegyfirborðinu á efra sigsvæðinu í viðunandi ástandi en frost síðustu vetur hafi hins vegar gert það.

Vegurinn var lagfærður í haust en fljótlega eftir það hafi komið í ljós töluvert sig á efra svæðinu. Á neðra svæðinu virðist ástandið stöðugra nema að klæðning hefur látið undan í vætutíðinni.

Vegagerðin muni eftir megni halda köflunum í horfinu með malaryfirborði fram á vor en þeir verði síðan lagfærðir betur og klæddir í byrjun sumars.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.