Orkumálinn 2024

Fjarðabyggð gerði athugasemdir við umferðakönnun um Öxi: Vegagerðin hafnaði þeim flestum

oxi_fundurjan11_3_web.jpgVegagerð ríkisins hafnaði flestum þeim fullyrðingum sem fram komu í athugasemdum sveitarfélagsins Fjarðabyggðar um nýtt vegstæði Axarvegar og lagningu vegar um Berufjarðarbotn. Landeigendur að Berufirði gerðu athugasemdir við áhrif vegarins á umhverfi sitt. Skipulagsstofnun mat áhrif alla veglínanna hafa neikvæð og óafturkræf áhrif á umhverfið.

 

Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps, sagði í fréttum RÚV um páskana að athugasemdir frá Fjarðabyggð hefðu haft áhrif á álit Skipulagsstofnunar. Hann sagði einnig að jákvæð samfélagsáhrif hefðu verið vanmetinn. Páll Björgin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, hefur síðar vísað ásökunum Andrésar á bug.

Skipulagsstofnun gaf út álit sitt fyrir páska. Þar segir að nýr Axarvegur hafi „verulega neikvæð,“ óafturkræf áhrif á „stórbrotið og tilkomumikið landslag á 6-7 km kafla í Berufjarðardal.“ Stofnunin telur að ekki sé pláss fyrir svo umfangsmikinn veg og gert er ráð fyrir á þessum stað. Fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir Vegagerðarinnar dragi lítt úr áhrifunum. Litlu skiptir hvaða veglínur verði valdar.

Samanburð á Öxi og leið um firði

Í athugasemdum sem Skipulagsstofnun bárust frá eigna- skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar eru gerðar athugasemdir við veglínur og forsendur umferðarkönnunar Vegagerðarinnar.

Í athugasemdum Fjarðabyggðar er til dæmis talið ólíklegt að nýr vegur um Öxi breyti nokkru um að 95% þungaflutninga fari um firði og hæpið sé að reikna með að umferð um norðanverðan Berufjörð minnki mikið. Gerð er athugasemd við að umferðarkönnunin sem stuðst er við í matsskýrslu hafi verið gerð að sumri til þar sem uppistaða vegfarenda séu erlendir ferðamenn og aðrir sumarferðalangar.

Skorað er á Vegagerðina að velja þá leið um Berufjarðarbotn sem feli í sér mesta styttingu á þjóðveginum um firði enda hafi það engin áhrif á vegalengd um Öxi. Að lokum er beðið um samanburð á leiða um firði og Öxi þar sem sérstaklega verði horft til umferðaröryggis.

Þungaflutningar fara stystu leið

Vegagerðin hafnar flestum athugasemda Fjarðabyggðar í svari sínu. Vissulega megi gagnrýna að valinn hafi verið júlímánuður fyrir umferðarkönnunina en tölur, bæði af Öxi og víðar, sýni að mest umferð sé í þessum mánuði og megnið af ársumferð utan vetrartíma.

Dreifing umferðar yfir sólarhringinn er svipuð og í öðrum könnunum Vegagerðarinnar. Reynsla stofnunarinnar sé að umferðin fari almennt stystu leið. „Afar ólíklegt verður því að telja að þungaflutningar, þar sem hver km kostar verulega fjármuni, velji að fara lengri leið ef önnur jafn góð og styttri leið er í boði.“ Því er því hafnað að ólíklegt sé að nýr vegur um Öxi breyti nokkru um leiðarval flutningafyrirtækja á Austurlandi.

Órökstuddar fullyrðingar Fjarðabyggðar

Vegagerðin telur að 90% ökumanna sem hafi hag af því að stytta sér leið nýti sér nýjan Axarveg. Forsendur Fjarðabyggðar um umferð út Berufjörð eru sagðar „órökstuddar“ og „ekki í takt“ við það sem fram komi á umferðarteljurum, í könnuninni eða öðrum gögnum Vegagerðarinnar.

Í könnun Vegagerðarinnar kom fram að erlendir ferðamenn völdu frekar leiðina um firði þar sem þeir treystu sér ekki yfir Öxi eða eitthvað á fjarðaleiðinni vakti áhuga þeirra.

Landeigendur gerðu athugasemdir varðandi gróf spjöll á landslagi

Önnur sveitarfélög gerðu ekki athugasemdir við matið en Fljótsdalshérað veitti umsögn. Þar var hvatt til að varlega yrði farið við uppbyggingu vegar við Skriðuvatn. Ýmsar stofnanir veittu umsögn í samræmi við hlutverk sitt.

Athugasemdir almennings komu flestar frá landeigendum og ábúendum jarðarinnar Berufjarðar. Þeir vara við áhrifum á umhverfi, landslag, beitarland, dýralíf og snjósöfnun. Þeir telja aðra kosti ekki nógu vel kannaða. Í einni athugasemdinni er A veglína Vegagerðarinnar sögð „gróf aðgerð hvað varðar landspjöll og röskun á landslagi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.