Fjallahjólafólk fái leyfi hjá landeigendum

Nauðsynlegt er að fjallahjólafólk fái leyfi landeigenda til að hjóla um leiðir sem ætlaðar eru göngufólki, segir framkvæmdastjóri Ferðafélags Fljótsdalshéraðs. Eftir sé að taka umræðuna um svæði fyrir vaxandi áhuga á fjallahjólreiðum.

„Við verðum vör við að fólk er farið að hjóla um leiðirnar sem merktar voru fyrir perlur Fljótsdalshéraðs og heiðarbýlin. Þegar félagið fékk leyfi landeigenda til að merkja þessar slóðir var alltaf talað um að það væri til gönguferða.

Þar sem í raun liggur ekki fyrir leyfi landeigenda til að fara á fjallahjólum um þessar leiðir er það sjálfsögð og almenn kurteisi fyrir fjallahjólafólk, vilji það hjóla þessar leiðir, að kynna sér hverjir séu landeigendur og fá leyfi,“ segir Þórhallur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.

Hið sama á við um Víknaslóðir. Ferðafélagið ásamt Ferðamálahópi Borgarfjarðar hefur haft umsjón með þeim í samvinnu við Borgarfjarðarhrepp sem á sínum tíma fékk leyfi landeigenda til að merkja leiðir og gefa út kort fyrir göngufólk.

Samvinna við landeigendur skiptir öllu

Þórhallur bendir á að góð samvinna við landeigendur hafi ávallt verið forsenda þess að hægt væri að hleypa fólki að svæðunum. „Við höfum verið í mjög góðri samvinnu við landeigendur hér á Héraði og á Borgarfirði hefur hreppurinn séð um samskipti við landeigendur. Við vitum til dæmis að sumir landeigendur að perlusvæðunum eru andvígir því að hjólað sé eftir merktum stígum.“

Hann nefnir hins vegar Rauðshaug, eina af perlum Fljótsdalshéraðs, sem dæmi um svæði sem skemmst hafi því þar hafi farið aðrir en gangandi. „Þangað upp er engin formleg slóð en greinilegt að þangað hefur verið farið á alls konar farartækjum án heimildar. Slóðin er orðin skýr og mosinn skemmdur eftir ökutækin.

Sveitarfélögin hefji samtalið

Þórhallur segist ekki þekkja til þess hvers konar ummerki fjallahjólin skilji eftir sig í landinu. Þau séu önnur en um meðal gangandi. Umræðan sé ekki komin á það stig því leyfi landeigenda fyrir hjólaferðum um umrædd landssvæði eru ekki fyrir hendi.

Staðan sé sú að nær öll umræða um hentug svæði til fjallahjólreiða sé framundan. Bæjarstjórn Fljótdalshérað samþykkti nýverið að greint yrði hvaða stígar og svæði henti til göngu, hlaupa og hólriða og kynna megi á þann hátt.

„Þessi umræða er mjög þörf. Það er ekki okkar meining að agnúast út í fjallahjólreiðar, við viljum bara að fengin séu leyfi og fyrirfram ákveðið á hvaða leiðum þau séu. Mér finnst sveitastjórnirnar lykilaðilar í að hafa frumkvæði að samtalinu sem þarf að fara fram til að koma í veg fyrir árekstra sem geta orðið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.