Fiskeldi veitir tækifæri til að auka útflutningstekjur um 100 milljarða á næstu árum

Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis, segir þörf fyrir Íslendinga að styðja við uppbyggingu í fiskeldi vilji þeir viðhalda lífsgæðum sínum á næstu árum. Þess vegna sér varhugavert að leggja strax auðlindagjald á greinina.

Þetta kom fram í ræðu Jens Garðars á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á föstudag.

Jens Garðar vísaði þar til umræðu um að útflutningstekjur Íslendinga þyrftu að aukast um 1000 milljarða, eða eina billjón króna, á næstu 20 árum til að þjóðin viðhaldi þeim lífsgæðum sem hún hefur í dag.

Jens Garðar benti á að með uppbyggingu fiskeldis væri hægt að auka útflutningsverðmæti um 100 milljarða á næstu árum, jafnmikið og verðmæti þorsks er í dag.

Hann sagði fiskeldið viðbót við íslenskan sjávarútveg sem ekki hefði beðið um sérstakar fyrirgreiðslur af hálfu stjórnvalda. Um væri að ræða framsækinn þekkingariðnað sem efldi byggðafestu á viðkvæmum svæðum og nýtt auðlindir sem ekki væru nýttar í dag.

Jens lýsti hins vegar vonbrigðum með að í drögum að lögum um fiskeldi sé gert ráð fyrir auðlindagjaldi af sjókvíaeldi. Of snemmt sé að fara fram með slíkar tillögur á sama tíma og greinin sé rétt að fara af stað og ekkert eldisfyrirtækjanna farið að skila hagnaði.

Jens notaði reyndar tækifærið til að gagnrýna einnig auðlindagjöld á hefðbundinn sjávarútveg. Hann sagði hækkandi rekstrarkostnað, meðal annars með skattheimtu, vera farinn að grafa undan samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs á heimsmarkaði.

Jafnframt hvatti hann stjórnvöld til að einfalda regluverk um sjávarútveg og efla hafrannsóknir. Jens Garðar kom einnig inn á umhverfismál þar sem hann kom inn á markmið um að kolefnisjafna íslenskan sjávarútveg.

Jens Garðar var í lok fundar endurkjörinn formaður samtakanna. Frá fyrirtækjum með aðalstarfsemi á Austurlandi sitja einnig í stjórninni Gunnþór Ingvason frá Síldarvinnslunni og Guðmundur Gíslason frá Fiskeldi Austfjarða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.