Finnafjörður: Fiskeldi, orkuframleiðsla, björgunaraðstaða og umskipunarhöfn - Myndband

Hugmyndir eru um fjölbreytta atvinnustarfsemi fyrir á annað þúsund manns í Finnafirði. Uppbygging þar mun taka áratugi.

Hafnarsvæði í Finnafirði mun ekki bara hýsa dæmigerða hafnarstarfsemi heldur einnig fiskeldi og orkuframleiðslu, ef þær hugmyndir sem nú eru á teikniborðinu ná fram að ganga.

„Landið sunnan fjarðarins er flatt og eyðilegt. Við gerum ráð fyrir litlum brimbrjót austast, síðan kæmi aðstaða til björgunaraðgerða og næst aðstaða, eða nokkurs konar vöruhótel, fyrir námaefni sem kæmi helst frá Grænlandi.

Þarna yrði um tveggja kílómetra langur gámavöllur og verksmiðja til að setja upp stóra hluti sem koma erlendis frá, frá Asíu.

Við sjáum fyrir okkur fiskeldi á landi. Fiskeldi á landi byggist upp í 5-10 þúsund tonna áföngum. Í Noregi eru 1,3 milljón tonna alin í fjörðunum en 200.000 tonn eru í byggingu, rekstri eða skipulagi uppi á landi. Í Finnafirði er möl en þarf ekki að brjóta niður granítfjöll eins og í Noregi. Ísland á feikileg tækifæri í fiskeldi en það er rangt að færa það allt út á firðina.

Á Íslandi er mikil óbeisluð orka, hún er ekki í fallvötnunum heldur vindinum og þetta svæði er einstaklega ríkt af vindorku. Þarna væri hægt að framleiða bæði vetni og súrefni, vetninu yrði breytt í ammoníak og þannig myndum við selja orku frá Íslandi á næstunni.

Þetta er sýn en ekki sannleikur - en eitthvað sem við vonum sannarlega að gerist,“ sagði Hafsteinn Helgason, sviðsstjóri viðskiptaþróunar hjá verkfræðistofunni Eflu við kynningu á mögulegri hafnaraðstöðu í Finnafirði við Langanes.

Einstakar aðstæður frá náttúrunnar hendi

Hafsteinn skrifaði á fimmtudag fyrir hönd Eflu undir samninga um áframhaldandi samvinnu um rannsóknir og þróun hafnaraðstöðu Finnafirði. Aðrir aðilar að samningunum eru sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur auk þýska fyrirtækisins Bremenports.

Efla hefur komið að verkefninu í um áratug og átti stóran þátt í að draga Bremenports að borðinu. „Við byrjuðum að þefa af verkefninu 2008. Það vissi eiginlega enginn þá hvar Finnafjörður var, eða annað um hann svo sem hversu djúpur hann væri. Ýmislegt hefur gerst síðan.“

Hugmyndir eru uppi um að koma upp hafnaraðstöðu á um 1200 hektara svæði í Finnafirði með sex kílómetra löngum hafnarkanti. Samkvæmt tilkynningu frá Bremenports eru aðstæður þar á marga vegu ákjósanlegar. Þar sé töluvert flatlendi, ólíkt mörgum öðrum íslenskum fjörðum, frábærar jarðfræðilegar aðstæður, 20 metra dýpi í firðinum og lítil ölduhæð þar sem Langanesið skýli firðinum fyrir úthafsöldunni.

Þar er farið yfir hvernig nýjar siglingaleiðir verði til þegar hlýnun jarðar opni leið um Norðurskautið sem stytti ferðina milli Asíu og meginlands Evrópu um tvær vikur. Aukin umferð kalli á björgunarhöfn sem Finnafjörður geti orðið. Þá séu þar bæði aðstæður til að framleiða raforku fyrir höfnina sjálfa og vetni sem knúið gæti skip framtíðarinnar.

Bæði Hafsteinn og fulltrúar Bremenports lögðu áherslu á að þrátt fyrir allt yrðu umhverfismál höfð í forgrunni við hafnarframkvæmdirnar. „Við höfum alltaf sagt að öll starfsemi í Finnafirði verði byggð upp á forsendum sjálfbærni. Við gætum að umhverfinu og öryggismálum í öllu tilliti og reynum að fara vandaðar leiðir. Ég vil ekki sjá reykháfa í Finnafirði og ég held það vilji enginn í dag sjá slíka stóriðju.“

Sagan af Borðeyri

Hafsteinn sagði að þarna gæti orðið til vinnustaður fyrir á annað þúsund manns sem gerbreytt gæti byggðamynstri á Íslandi.

„Það er erfitt fyrir alla að sjá fram í framtíðina en það er hægt að læra mikið af sögunni. Innst í Hrútafirði er lítið þéttbýli sem heitir Borðeyri. Fyrir 120 árum var það stærsta þéttbýli á Íslandi því þar var hægt að taka í land vörur frá skútum. Hver veit nema Borðeyri hefði byggst upp sem höfuðstaður Íslands ef þar hefði byggst upp hafnaraðstaða?

Margt gerist á 100 árum en við getum fullyrt að þetta verkefni mun byggjast upp á 40-50 árum. Það verða því komandi kynslóðir, krakkarnir hér á leikskólanum, sem munu upplifa það.“

Hafsteinn notaði ennfremur landeigendum í Finnafirði fyrir þeirra aðkomu að verkefninu. „Þeir hafa frá upphafi sýnt skilning á þessu verkefni. Án þeirra velvilja myndi ekkert gerast. Þeir njóta líka góðs af ef allt gengur upp.“ Í fréttum RÚV á föstudagskvöld var rætt við landeiganda í firðingum norðanverðum sem mótmælt hefur áformunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar