Finn hvað bændur eru þakklátir fyrir að geta hringt

Maí er ekki bara annasamur tími hjá sauðfjárbændum sjálfum, heldur einnig þjónustuaðilum þeirra. Hjá Landstólpa á Egilsstöðum er í boði sólarhringsþjónusta yfir þennan annatíma. Verslunarstjórinn segir mánuðinn erfiðan en ánægjulegan.

„Ég vildi gera eitthvað öðruvísi sem myndi nýtast vel. Ég hef sjálf verið í sauðburði þar sem ég bý og mér fannst vanta að hægt væri að hringja og fá afgreiðslu utan hefðbundins opnunartíma,“ segir Kristjana Jónsdóttir, verslunarstjóri hjá Landstólpa.

Í maí geta bændur hringt í síma 895-2414 hvenær sem vanhagi þá um eitthvað. Þótt þjónustan sé í boði allan sólarhringinn er mest hringt á kvöldin og helgar. „Það er ýmislegt sem klárast og vantar. Við eigum gríðarlegt úrval bætiefna.

Það er ekki mikið hringt á næturnar en það koma samt alltaf nokkur næturútköll. Bændur hringja ekki að óþörfu. Við finnum að þetta er ótrúlega vel metið. Við tökum ekkert aukalega fyrir þetta, þjónustan er frí.

Til okkar kemur fólk allt frá Hornafirði og Vopnafirði. Það er ekki endilega á leið hér um á opnunartíma en getur þá hringt og látið vita af sér hvort sem það er að kvöldi, helgi – eða nóttu.“

Þjónustan hefur verið í boði frá árinu 2011. „Mér finnst almennt ekki mikið mál að vakna. Ég viðurkenni samt alveg að ég er orðin örlítið eldri en þegar ég byrjaði með þjónustuna og ég finn aðeins meira fyrir þessu eftir á.

Þótt mánuðurinn sé erfiður hlakka ég alltaf til næsta árs. Maí reynir á en hann er þess virði. Ég samt hálfan júní að jafna mig.“

Á þessum tíma hefur Kristjana líka séð þróun sem er að verða í sveitunum. „Það eru færri einstaklingar á hverjum bæ. Stundum vantar þessar aukahendur þannig ég hef stundum farið í burðarhjálp.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.