Fimmta mislingatilfellið staðfest

Veirufræðideild Landsspítala staðfesti seinni partinn í dag nýtt tilfelli af mislingasmiti. Þar með hafa fimm tilfelli verið staðfest frá 18. febrúar.

Smit barst til landsins með einstaklingi sem kom frá Filippseyjum með áætlunarflugi frá Lundúnum til Keflavíkur þann 14. febrúar og síðan áfram með flugi til Egilsstaða daginn eftir.

Í tilkynningu frá embætti landlæknis kemur fram að sá sem nú hefur verið greindur með mislinga hafi komist í snertingu við þann aðila sem kom með fluginu austur í Egilsstaði 15. febrúar síðastliðinn.

Fram hefur komið að viðkomandi var á leikskólanum Skógarlandi á Egilsstöðum á mánudag og þriðjudag. Þar hafa börn og starfsmenn sem eru óbólusett, eða hafa ekki fengið mislinga og voru í skólanum þessa daga, verið beðin um að vera heima til föstudagsins 22. mars með sem minnstu samneyti við almenning og óbólusetta einstaklinga. Tilmælunum er dreift til að hindra frekara smit. Bólusett börn og starfsmenn geta haldið áfram að vera í leikskólanum.

Fyrr í dag var send út áskorun til allra Austfirðinga, fæddra eftir 1970, sem eru óbólusettir að koma í bólusetningu á Egilsstöðum og Eskifirði um helgina.

Opið er til 20:00 fyrir almenning á báðum stöðum í kvöld og frá 10-15 á morgun. Þeir sem eru í sérstakri smithættu eftir að hafa umgengist smitaða eru beðnir að koma milli 20-21 í kvöld og 15-16 á morgun.

Þá er hægt að hafa samband við sólarhringsvakt fyrir landið allt í síma 1700 alla daga vikunnar.

Upplýsingar um bólusetningar á Austurlandi

Föstudagur 8. mars 2019:
Allir einstaklingar eldri en 6 mánaða og fæddir eftir 1970 sem ekki hafa verið bólusettir eru hvattir til að mæta í bólusetningu. Bólusett verður á Egilsstöðum og Eskifirði í dag, föstudaginn 8. mars, frá kl. 15:00 til 20:00.
Þeir sem telja sig hafa verið í samskiptum við smitaðan einstakling eru beðnir að koma í bólusetningu kl. 20:00-21:00 í dag, föstudaginn 8. mars.

Laugardagur 9. mars 2019:
Allir einstaklingar eldri en 6 mánaða og fæddir eftir 1970 sem ekki hafa verið bólusettir eru hvattir til að mæta í bólusetningu. Bólusett verður á Egilsstöðum og Eskifirði laugardaginn 9. mars, frá kl. 10:00 til 15:00.
Þeir sem telja sig hafa verið í samskiptum við smitaðan einstakling eru beðnir að koma í bólusetningu kl. 15:00-16:00 laugardaginn 9. mars.

- Egilsstaðir: Lagarás 22, skrifstofa framkvæmdastjórnar HSA
- Eskifjörður: heilsugæslustöðin

EKKI ÞARF AÐ PANTA TÍMA, NÓG ER AÐ KOMA Á TÍMUNUM SEM TILGREINDIR ERU HÉR AÐ OFAN

Athugið:
- Einstaklingar sem fæddir eru fyrir 1970 hafa langflestir fengið mislinga og eru því ekki í forgangi í bólusetningu.
- Einstaklingar sem eru með sögu um eina bólusetningu eru ekki í forgangi. Hægt verður að bjóða þeim bólusetningu síðar.

Upplýsingar á ensku frá HSA
Upplýsingar á pólsku frá HSA
Upplýsingar á íslensku, ensku og pólsku frá embætti landlæknis.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar