Orkumálinn 2024

Fimm ný Covid-smit

Boðið verður upp á sýnatöku á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði í kvöld. Tvö ný Covid-19 smit greindust með tengsl við byggðarlögin eftir sýnatöku í gær.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi. Sýnataka verður frá 18:00-18:30 á Breiðdalsvík en 20:00-20:30 á Stöðvarfirði. Sýnatakan verður í skólunum.

Nemendur og starfsfólk í grunn- og leikskólanum, ásamt foreldrum, systkinum og öðrum sem þeim og skólanum tengjast eru sérstaklega hvattir að mæta í PCR sýnatöku, en sýnatakan er þó öllum opin.

Ekkert skólahald verður á stöðunum á morgun, hvorki í leik né grunnskólum. Báðir hinna smituðu voru í sóttkví.

Leiðbeiningar fyrir sýnatöku og sóttkví 

Fyrir sýnatöku þurfa bæði börn og fullorðnir að bóka sig inn á www.heilsuvera.is til að fá strikamerki sem mætt er með á sýnatökustað á tilteknum tíma. Ef einhverra hluta vegna gengur ekki að bóka sýnatökuna er í lagi að mæta á staðinn og fá aðstoð.

Minnt er á að á sýnatökustað þurfi að halda eins metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga, nota andlitsgrímur og ekki dvelja þar lengur en nauðsynlegt er.

Eftir sýnatöku þurfa þeir sem finna fyrir einkennum að halda sig heima þar til niðurstöður liggja fyrir. Einkennalausir geta fylgt reglum um smitgát, en samkvæmt þeim má sinna vinnu eða öðrum erindagjörðum innan skynsamlegra marka.

Þeir sem eru í sóttkví þurfa ekki að mæta í þessa sýnatöku enda verða þeir boðaðir í sýnatöku undir lok sóttkvíar. Ef um er að ræða einstakling í sóttkví, sem er farinn að finna fyrir einkennum, er í lagi að viðkomandi mæti í sýnatöku en fari þá í öllu eftir reglum um sóttkví, haldi sig frá öðrum á sýnatökustað og láti vita af því að hann sé í sóttkví.

Neikvæð niðurstaða hjá fólki í sóttkví styttir ekki sóttkvína, heldur þarf að mæta í sýnatöku samkvæmt fyrirmælum rakningateymis við lok sóttkvíar.

Ný smit á Egilsstöðum

Þá greindust þrjú ný smit á Egilsstöðum í dag. Tveir voru í sóttkví en smitrakning stendur yfir vegna þriðja smitsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.