Orkumálinn 2024

Ferðamenn vilja vera í sóttkví á Íslandi

Austfirskum gististöðum hafa borist fyrirspurnir frá erlendum ferðamönnum sem vilja fá að vera þar í sóttkví áður en þeir fara að ferðast um landið. Slíkt er heimilt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Hafaldan á Seyðisfirði er einn þeirra austfirsku gististaða sem fengið hafa slíkar fyrirspurnir. Þetta staðfestir Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, framkvæmdastýra. Austurfrétt hefur upplýsingar um að fleiri gististöðum eystra hafi borist slíkar fyrirspurnir að undanförnu.

Samkvæmt reglum, sem sóttvarnalæknir tilkynnti í dag um að yrðu líklega framlengdar til 15. júní, ber öllum sem koma erlendis frá að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til Íslands.

Benedikta segist hafa fengið fyrirspurnir frá tveimur þýskum fjölskyldum sem stefni á að koma til landsins með Norrænu í næsta mánuði um hvort þær geti verið í sóttkví á gistiheimilinu. Það er reyndar háð ýmsu öðru, til dæmis hvort dönsk yfirvöld heimili þeim að fara yfir landamærin til að komast í ferjuna en eftir því sem Austurfrétt kemst næst á það að geta gengið eftir.

Skipta máli fyrir reksturinn

Hafaldan rekur gistingu í aðskildum húsum og segir Benedikta mögulegt að taka annað húsið alfarið frá fyrir ferðamennina. Hún segist hafa tekið jákvætt í að aðstoða ferðafólkið við færa því nauðsynjavörur, en sem kunnugt er mega einstaklingar í sóttkví ekki fara í sjálfir í verslanir og þurfa að gæta vandlega að samskiptafjarlægð gagnvart öðru.

Benedikta segir þessa þjónustu þó sjálfsagt mál því koma nokkurra gesta geti skipt gististaði miklu á þessum tímum. „Svona pöntun getur bjargað mánuðinum því það sem ferðamennirnir borga dugir fyrir rafmagni og hita.“

Þegar Austurfrétt ræddi við Benediktu var hún að bíða eftir nánari upplýsingum frá almannavörnum um hvaða skilyrði væru fyrir móttöku gesta í sóttkví. „Við hlítum að sjálfsögðu öllum fyrirmælum sóttvarnayfirvalda.“

Óheimilt að vera í sóttkví í húsbíl

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi segir að almannavarnanefnd Austurlands hafi borist fyrirspurnir frá gististöðum en líka ferðafólki sem vill vera í húsbílum og hjólhýsum um sóttkví. Nefndin hafi fengið þær upplýsingar frá sóttvarnalækni að óheimilt sé að vera í sóttkví í farartækjunum, meðal annars vegna reglna um hreinlætisaðstöðu og aðföng.

Hins vegar sé heimilt að vera á gistiheimili að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, en upplýsingar um viðmið fyrir húsnæði í sóttkví er að finna á vef Landlæknis. Þar er meðal annars fjallað um hreinlætisaðstöðu, sóttvarnir starfsfólks og að æskilegt sé að þeir sem eru í sóttkví hafi sérstakan inngang.

Þá þurfa allir þeir sem eru í sóttkví að tilkynna sig til yfirvalda, en utanumhald með þeim er í höndum Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Rauða krossins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.