Orkumálinn 2024

Fellabakstur seldur til 701 hótels

Gengið hefur verið frá samningi um kaup 701 hótels á eignarhaldsfélaginu Fellabakstri sem á og rekur Fellabakari. Þráinn Lárusson eigandi 701 hótels segir að bakaríið muni áfram þjónusta verslanir og viðskiptavini með brauð eins og verið hefur.


„Við sjáum mikla möguleika í framtíð þessa reksturs en auðvitað verða breytingar á honum með tilkomu nýrra eigenda,“ segir Þráinn. „Þar að auki eru samlegðaráhrif okkur hagstæð eins og til dæmis hvað varðar Salt express vörulínu okkar. Þar má búast við nýjungum.“

Fram kemur í máli Þráins að einnig sé á borðinu hugmyndir um að Fellabakarí fari í framleiðslu á eigin samlokum eða í samvinnu við Salt express.

Samningar um kaupin hafa staðið um nokkurt skeið milli Þráins og Björgvins Kristjánssonar eiganda Fellabaksturs. Kaupverðið er trúnaðarmál. Björgvin mun hinsvegar starfa áfram hjá Fellabakaríi sem yfirmaður í fyrirtækinu.

Fellabakarí er langstærsta bakaríið á Austurlandi og það selur brauð í öllum helstu verslunum í fjórðungnum eins og Bónus, Nettó, Krónunni og fleirum.

„Við erum viss um að þessi kaup séu af hinu góða. Við munum halda áfram að þjónustu viðskiptavini Fellabakaríis og jafnframt bjóða þeim og einnig okkar viðskiptavinum upp á nýjungar í framtíðinni,“ segir Þráinn.

Nýtt bakarí

Eins og fram hefur komið í fréttum hér á Austurfrétt hefur Þráinn unnið að því að koma sér upp eigin bakaríi á undanförnun mánuðum á Egilsstöðum.

„Samhliða þessum kaupum ætlum við að koma okkur upp eigin bakaríi í húsnæði Salts í Kleinunni,“ segir Þráinn. „Þetta verður svokallað listrænt bakarí í stíl við Brauð & co í Reykjavík.“

Fram kemur í máli Þráins að Salt hafi fengið Ágúst Einþórsson einn af stofnendum Brauð & co að koma austur til að vera þeim innanhandar við uppbyggingu á þessu bakaríi.

„Við gerum okkur vonir um að þetta geti orðið ákveðinn vendipúnkur í brauðmenningunni hér Austanlands,“ segir Þráinn.

Mynd: Fellabakarí.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.