Farþegar pöntuðu sér rútu til að komast til Reykjavíkur

Yfir 100 farþegar sem áttu bókað far með Wizz Air til Keflavíkur í gærkvöldi biðu í flugstöðinni á Egilsstöðum uns þeir voru sóttir með rútum í morgun. Hluti farþeganna er enn fastur eystra og eiga erfitt með að finna leið þar sem allir bílaleigubílar staðarins eru uppbókaðir.

Tvær vélar ungverska flugfélagsins lentu á Egilsstöðum með stuttu millibili þegar klukkan var rétt orðin sex í gærkvöldi vegna aftakaveðurs í Keflavík. Um borð voru yfir 350 farþegar.

Farþegum bauðst að fara frá borði og vera tollafgreiddir, með þeim fyrirvara að þeir yrðu sjálfir að bjarga sér eftir það. Til staðfestingar urðu þeir að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að þeir fyrirgerðu öllum rétti sínum til bóta af hálfu félagsins.

Farþegar pöntuðu rútu

Öðrum bauðst að fljúga aftur til baka með vélunum, sem komu báðar frá Póllandi, önnur frá Kraká og hin Wroclaw. Þar myndi félagið veita fólkinu gistingu og það gæti síðan valið um flug aftur til Íslands á næstu dögum. Aðeins fjórðungur farþega mun hafa valið þann kost.

Hópur farþega tók sig saman og pantaði rútu til að komast suður. Farþegum var safnað í gegnum Facebook og biðu á flugvellinum eftir farinu. Sextíu manns komust með rútunni sem kom til Egilsstaða um klukkan fimm í morgun.

Allir bílaleigubílar farnir og hótel uppbókuð

Bílaleigubílar eru takmörkuð auðlind á Egilsstöðum. Bílaleiga Akureyrar var sú eina sem bauð bíla til leigu í gærkvöldi. Þar fengust þær upplýsingar að tæplega 20 bílar hefðu verið leigðir farþegum úr flugunum, í raun allir þeir bílar sem ekki væru fráteknir í önnur verkefni um helgina. Verið er að athuga möguleika á að fá bíla annars staðar frá en ekkert hefur verið staðfest í þeim efnum.

Ekki var heldur hlaupið að því að fá gistipláss. Fullbókað var á Hótel Héraði og svo gott sem á Valaskjálf og Gistihúsinu. Á Hótel Eyvindará voru nokkur herbergi laus. Flosi Ófeigsson, starfsmaður þar, sagðist í samtali við Austurfrétt hafa sótt farþega, sem voru frekar pirraðir með vinnubrögð Wizz Air inn í Egilsstaði. Margir sem höfðu bókað herbergi hættu við þegar rútan bauðst.

Hluti farþega er enn strand á Egilsstöðum. Engir landsbyggðarstrætóar ganga milli Egilsstaða og Akureyrar, né sunnar frá Reykjavík en að Vík í Mýrdal á laugardögum. Þá liggur innanlandsflug niðri vegna veðurs og er næsta athugun á því ekki fyrr en klukkan tólf á hádegi.

Veistu um far?

„Við erum föst hér. Það er engin rúta og allir bílar leigðir. Við vitum ekkert hvað við getum gert. Við skoðuðum flug en það er dýrt og ekki laust fyrr en á sunnudag. Þetta verður dýr ferð því við þurfum að kaupa okkur gistingu og útvega okkur far. Ef þú veist um einhvern sem er að safna í ferð til Reykjavíkur þá máttu gjarnan láta okkur vita,“ segir Oscar Brjs, einn farþega úr fluginu sem gisti á Eyvindará í nótt.

Hann var í vélinni sem kom í Kraká en hann býr í Reykjavík. Hann skrifaði undir skilmála Wizz áður en hann fór frá borði. „Kosturinn var að fara frá borði og bjarga okkur sjálf eða fara aftur til Krakár og þaðan strax aftur til Keflavíkur. Okkur leist ekki á að vera samfleytt tólf tíma í flugvél.“

Hann er ekki ánægður með vinnubrögð flugfélagsins. „Upplýsingarnar voru hrikalega. Enskan mín er heldur ekki góð þannig ég tala ekki svo auðveldlega við fólk. Ég get ekki annað sagt en þetta var algjörlega bilað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.