Farið fram á lögbann á framkvæmdum við Steinboga

steinbogi_fiskvegur1_web.jpg
Landeigendur neðan Steinbogans í Jökulsá á Dal hafa sent sýslumanni kröfu um að lögbann verði sett á framkvæmdir við laxastiga við bogann. Þeir segja gögn vanta sem sanni að framkvæmdirnar hafi þau áhrif sem ætlast er til. Framkvæmdaaðilar hafa óskað eftir að breytingum á framkvæmdinni sem leyfð var síðasta haust.

Vikublaðið Austurglugginn greindi frá lögbannskröfunni fyrir helgi. Framkvæmdin hefur einnig verið kærð til Fiskistofu og bæði umhverfisráðherra, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun verið sendar athugasemdir vegna þess.

Steinboginn hefur verið talinn hamla því að fiskur geti gengið á efri veiðisvæði í Jöklu og vonast framkvæmdaaðilar til að fiskvegurinn stækki veiðisvæðið um 60 kílómetra. Í júní óskaði stjórn Veiðifélags Jökulsár á Dal eftir samþykki sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs á breytingu á fiskveginum. Þar er gert ráð fyrir að hann verði 20 metrum lengri en áður var ætlað en sagt er að aðstæður hafi verði óhentugar þegar mælingar voru gerðar haustið 2010.

Þá er óskað eftir að fiskvegurinn verði tveggja metra breiður alla leið en ekki 0,8-1,2 metra eins og fram kom í upphaflega framkvæmdaleyfinu. Með þessu eykst vatnsflæðið um veginn sem á að auka líkurnar á að hann þjóni tilgangi sínum. Björn Sveinsson verkfræðingur, sem skrifar undir umsóknina fyrir hönd Veiðifélagsins, segist álíta breytinguna „minniháttar“ og áhrif á umhverfi eða aðra þætti „lítil.“

Umhverfis- og héraðsnefnd lagðist gegn þessum breytingum þegar hún tók erindið fyrir. Framkvæmdir hófust eftir gildandi framkvæmdaleyfi í byrjun júní og standa enn yfir.

Ósætti innan Veiðifélagsins

Klofningur virðist ríkja um málið innan Veiðifélagsins. Austurglugginn greinir frá því að nýverið hafi landeigendur neðan Steinbogans sent stjórninni áskorun um að fresta framkvæmdunum. Þeir óska eftir því að skipuð verði sáttanefnd sem reyni að finna lausn. 

Stjórnin hafnaði þeirri ósk enda telji hún að ekkert hafi komið fram um annað en framkvæmdin verði „öllum hagsmunaaðilum til framdráttar.“ Aðalfundur félagsins í maí hafi einnig samþykkt með „nokkrum“ meirihluta að ráðast í framkvæmdirnar.

Ekkert vitað um hvort árangur náist

Ekki eru allir jafn sannfærðir og stjórnin um að fiskvegurinn auki fiskgegndina. Í athugasemdum Arnars Ingólfssonar, eins eigenda jarðarinnar Hræreklæks, sem meðal annars voru sendar sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði, bendir hann á að hvergi liggi fyrir gögn frá umsagnar og rannsóknaraðilum um að Steinboginn sé farartálmi fyrir lax.

„Hér er um framkvæmd að ræða sem lítið er vitað um hver ávinningur verði á laxgegnd á efrasvæði Jökulsár á Dal eða hvort yfirleitt nokkur árangur næst. Því er enginn skaði skeður þó svo þessari framkvæmd væri frestað til næsta sumars.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.