Fannst þakið ekki fjúka af heldur sogast upp

Um 300 fermetrar af þaki brettasmiðju Tandrabergs á hafnarsvæðinu í Norðfirði eru ónýtir eftir óveðrið síðasta laugardag. Nokkrir starfsmenn voru að störfum þar inni þegar þakið fór af, meðal annars framkvæmdastjórinn sem segir óhugnanlegt hafa verið að fylgjast með.

„Við vorum að vinna að viðgerðum inni í húsinu. Við höfðum verið þar allan morguninn og á þeim tíma komu margar hviður.

Svo heyrast drunur, líkt og í hamförum og vesturveggurinn leikur á reiðiskjálfi. Ég kalla á strákana og við förum í skjól undir steypt milliloft.

Ég held að þakið hafi ekki fokið, heldur sogast upp – eins og það væri híft. Sperrurnar klofnuðu,“ segir Einar Birgir Kristjánsson, framkvæmdastjóri Tandrabergs.

Héldu að húsið færi í næstu hviðu

Einar segir að starfsmennirnir hafi verið smá stund að ná áttum og ákveða næstu skref. Ekki hafi komið til greina að fara út úr skemmunni og upp í vindinn en hlé megin óttuðust þeir að þakplötur væru á ferð. Þeir fór því inn í steypt rými í húsinu. „Þá kemur önnur hviða og ég hélt að húsið færi. Þá fórum við út og reyndum að koma okkur í burtu.“

Þeir hringdu í Neyðarlínuna sem gerði björgunarsveitinni Gerpi í Neskaupstað viðvart. Félagar í henni voru komnir á staðinn tíu mínútum síðar og búnir að fergja þakið klukkutíma eftir að þakið fór af.

Kapp lagt á að loka húsinu

Bygging Tandrabretta er 800 fermetra stálgrindarhús. Þakið fór af á um 200 fermetrum og er ónýtt á um 100 fermetrum í viðbót. Vikan hefur farið í að laga til eftir skemmdirnar. „Við fengum efni strax á þriðjudagsmorgni og vonumst til að loka húsinu að mestu á morgun. Við tvöföldum allar sperrur og styrkjum það sem þarf að styrkja,“ segir Einar.

Kapp er lagt á að loka til að verja verðmæt tæki sem eru þar innandyra og áður en loðnuvertíð hefst. „Það er lán í óláni að ekki var búið að vinna hana, en við vonum að það gerist,“ segir Einar.

Hann segir ummerkin hafa vakið nokkra athygli verkfræðinga sem hafi komið til að skoða þau. „Það kom einn til mín og sagðist hissa því hann fyndi ekki neitt að. Það væri slæmt því þá vissi hann ekki hvað hefði gerst. Það þykir merkilegt að svona geti gerst í fimm ára gömlu húsi.“

Sérstök upplifun

Einar Birgir segir að vindhraðamælir um borð í uppsjávarveiðiskipinu Polar Amaroq, sem lá við bryggju skammt frá, hafi farið upp í 55 m/s um það leyti sem þakið fór af skemmunni. „Þetta er eitthvert það versta veður sem ég hef upplifað og það var frekar óþægilegt að vera inni í skemmunni. Ég er samt feginn að hafa verið þar, bæði því þetta var sérstakt en líka því það hefði getað orðið meira tjón ef við hefðum ekki náð að láta vita af þessu strax.“

Tjón varð víða í hvassviðrinu á laugardag, meðal annars á álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. „Við urðum fyrir tjóni af völdum veðurs á veggjum kerskála, þakskemmdir á skautsmiðju en aðalskemmdirnar voru á kjallaragardínum, líkt og kallaðar eru, á kjallara kerskálans. Verið er að klára að gera bráðabirgða lagfæringar en svo þarf að bíða betra veðurs og aðfanga til að klára fullnaðarviðgerð. Það hefur ekki verið metið hversu mikið tjónið var í fjármunum talið,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Fjarðaáls.

Mynd: Aðsend


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.