Fannst Gautavík „langt-í-burt-istan“

„Það felast mikil tækifæri og að mörgu leyti aukin lífsgæði í því að búa út á landi. Sífellt fleiri eru að átta sig á því sem hefur orðið til þess að þróunin er að snúist við. Síðastliðin tvö ár fluttu fleiri úr þéttbýli í dreifbýli en öfugt, í fyrsta sinn síðan 1906,“ segir Oddný Anna Björnsdóttir en hún flutti nýverið með fjölskyldu sinni í Gautavík í Berufirði þar sem þau reka meðal annars fyrirtækið Geislar hönnunarhús.


Oddný og maður hennar, Pálmi Einarsson, bjuggu áður í Kópavogi og eiga saman þrjá syni. Fyrir átti Pálmi son sem býr ásamt sambýliskonu sinni í Reykjavík. Þann 1. júlí síðastliðinn flutt fjölskyldan með allt sitt hafurtask á jörðina Gautavík í Berufirði.

Pálmi er iðhönnuður að mennt og stofnaði Geisla árið 2012, en fyrirtækið sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á gjafavörum, minjagripum og módel leikföngum, ásamt því að bjóða upp á skurðarþjónustu og hönnunarráðgjöf. Vörurnar eru umhverfisvænar, gerðar úr viði og öðrum náttúrulegum hráefnum og eru allar framleiddar á verkstæði Geisla.

Oddný er viðskiptafræðingur og stundaði mastersnám í alþjóðaviðskiptum. Frá árinu 2010 hefur hún starfað innan matvælageirans, lengst af sem framkvæmdastjóri heildsölunnar Yggdrasill. Þegar fyrirtækið var selt árið 2016 gerðist hún sjálfstæður ráðgjafi á sviði matvæla og landbúnaðar, ásamt því að sjá um sölumálin hjá Geislum.

„Þá bara small eitthvað í hausnum á mér; þetta var málið“
„Við fórum fyrst að ræða að flytja út í sveit upp úr 2012 enda bæði miklir náttúruunnendur. Pálma hafði líka alltaf langað til að verða bóndi, enda alinn upp á sauðfjárbúi í Suðursveit, fór eitt ár á Hvanneyri og var með allskyns sjálfbærnihugmyndir sem hann kynnti undir heitinu Edengarðar Íslands og síðar Fiskaland.is. Ég var þó ekki alveg tilbúin til að taka stökkið á þeim tíma en við skoðuðum þó nokkrar jarðir, til dæmis í Eyjafirði og Skagafirði og vorum með allskyns pælingar.

Á föstudegi í lok apríl síðastliðinum sendi Pálmi mér slóð á jörðina Gautavík. Ég kíkti á hana og spurði hann hreint út hvort hann ætlaði með mig í „langt-í-burt-istan“ og hugsaði ekki um það meir! Seint á sunnudagseftirmiðdegi sömu helgi, þegar við vorum á leið heim úr bústaðnum okkar, bað hann mig að kíkja aftur á þessa jörð, gefa henni annan séns. Ég gerði það og þá bara small eitthvað í hausnum á mér; þetta var málið! Jörðin hafði allt sem okkur hafði dreymt um; bæði hvað varðar umhverfið og húsakostinn og eins varð mér ljóst að nú var rétti tíminn kominn til að taka þetta stökk sem ég hafði verið svo rög við að taka.“

Aðeins sjö dögum síðar var fjölskyldan búin að setja húsið í Kópavoginum á sölu og samþykkja bindandi kauptilboð í það, fara hingað austur til að skoða aðstæður og gera bindandi kauptilboð í Gautavíkina. Rúmum sjö vikum síðar fluttu þau svo austur.

Bjóða heim á Dögum myrkurs
Þau hjónin hafa þegar hafið búskap, fyrst og fremst til sjálfþurftar en stefna að því að selja það sem umfram verður beint frá býli. Þau eru komin með 27 gimbrar, þrjá hrúta, hana og nokkrar hænur og er inniræktun á nokkrum grænmetistegundum farin í gang. Þau sjá fyrir sér að bæta við fleiri dýrategundum, stunda útiræktun og „aquaponics inniræktun“ (sjálfbær ræktunaraðferð þar sem fiskur og matjurtir eru ræktuð saman í lokaðri hringrás næringarefna) á úrvali af grænmeti og ávöxtum, skot- og fiskveiði og hugsanlega einhverja ferðaþjónustu.

Í tilefni af Dögum myrkurs verður opið hús í Gautavík um helgina. Sýningin "Óður til ljóssins" verður í hlöðunni sem hefur fengið nafnið Gallerý Geislar Gautavík. Á næstu misserum verður hlaðan einnig nýtt sem leiktækja- og íþróttasalur.

Geislar í Gautavík 1000

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.