Fangelsisdómur fyrir ofbeldi í nánu sambandi og ítrekuð brot gegn nálgunarbanni

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í 15 mánaða fangelsi, þar af 12 mánuði skilorðsbundið fyrir ofbeldi gegn eiginkonu sinn og ítrekuð brot á nálgunarbanni. Hann var hins vegar sýknaður af ýmsum ákæruatriðum, svo sem nauðgun, vegna skorts á sönnunargögnum.

Að því er fram kemur í dóminum kynntist parið árið 2019 og gekk fljótlega í hjónaband. Miðað við lýsingar konunnar hófst ofbeldið, líkamlegt sem andlegt, nánast strax. Strax í október sama ár leitaði hún ásjár lögreglu og var maðurinn strax settur í nálgunarbann sem gilti í viku.

Mánuði síðar var maðurinn aftur settur í nálgunarbann, hann handtekinn og setur í gæsluvarðhald auk þess sem konan fékk lögskilnað. Af dóminum verður ráðið að þrátt fyrir þetta hafi konan nokkrum sinnum leitað til yfirvalda og óskað eftir að maðurinn yrði látinn laus þannig þau gætu sæst. Endanleg kæra konunnar var lögð fram vorið 2020 en í byrjun þess árs hafði hún flust aftur til foreldra sinna.

Erfitt að sanna orð gegn orði

Meðal þess sem maðurinn var ákærður fyrir að hafa gert á þessum tíma var nauðgun, barsmíðar, niðurlæging með að hella yfir konuna köldu vatni og láta hana nakta þrífa gólf íbúðar þeirra auk hótana um líflát og örkumlun. Fyrir flest þessara atriða var sýknað þar sem maðurinn neitaði sök og sönnunargögn málsins voru ekki nógu öflug til að geta hrakið framburð tveggja einstaklinga sem stönguðust á um atburði sem urðu innan veggja heimilis þeirra en maðurinn neitaði sök að nær öllu leyti.

Eins hafði það áhrif við sönnunarfærsluna að konan sjálf nýtti rétt sinn til að gefa ekki skýrslu fyrir dómi vegna andlegrar líðunar. Þess vegna gafst verjanda ekki kost á að spyrja hana. Hún staðfesti að hún hefði fyrir dómþingið verið í samskiptum við fyrrum eiginmann sinn en neitaði að það væri ástæðan fyrir að hún vildi ekki tjá sig. Þá taldi dómurinn heldur ekki öll brotin vera rétt heimfærð í ákæru.

Frásögn vitna, einkum fjölskyldu og samstarfsfólks konunnar auk áverkavottorða lækna, færðu hins vegar sönnur á að maðurinn hefði beitt hana ofbeldi með að slá hana en ósannað var hve ítrekað það hefði verið. Maðurinn var einnig sakfelldur fyrir húsbrot með að hafa farið inn um ólæstar dyr á heimili foreldra hennar, auk þess sem hann hafði barið þar og glugga og öskrað við húsið sem valdið hafði heimilisfólkinu ónæði.

Ákærður fyrir um 1000 skeytasendingar í nálgunarbanni

Þá var maðurinn sakfelldur fyrir ítrekuð brot gegn nálgunarbanni sem dómurinn taldi sýna einbeittan brotavilja. Má þar nefna að þá viku sem fyrsta nálgunarbannið stóð reyndi maðurinn 165 sinnum að hringja í konuna eða senda henni skilaboð á Skype.

Í öðru nálgunarbanninu í lok nóvember sendi maðurinn henni 86 SMS-skilaboð sama daginn og reyndi 67 sinnum að hringja í hana á þriggja daga tímabili. Samkvæmt ákæru gerði maðurinn fleiri tilraunir á þessu tímabili til að hafa samband við konuna, meðal annars úr síma fangelsisins á Hólmsheiði þar sem hann var í gæsluvarðhaldi.

Í þriðja nálgunarbanninu, frá mars til september 2020, sendi maðurinn henni 800 Messenger-skilaboð og 50 tölvupósta auk hringinga, SMS-boða og skilaboða í gegnum aðra. Maðurinn játaði að hafa sent henni 10-11 skilaboð en ekki nærri 1000 eins og ákært var fyrir. Sönnunargögn, meðal annars úr síma bannsins, báru vitni um annað þótt ekki teldist sannað að maðurinn hefði sent jafn mörk skilaboð og ákært var fyrir.

Fram kemur að brot mannsins hafi valdið konunni miklum kvíða, vanlíðan og skömm og þau hafi að lokum orðið til þess að hún flutti úr heimabyggð sinni.

Sem fyrr segir var maðurinn dæmdur í 15 mánaða fangelsi, þar af 12 mánuði skilorðsbundið fyrir ofbeldi í nánu sambandi, húsbrot og brot gegn nálgunarbanni. Konan fór fram á tæpar fjórar milljónir í skaðabætur en fékk dæmdar 1,2. Þá var maðurinn dæmdur til að greiða helming sakarkostnaðar sem samanlagt var tæpar 12,7 milljónir króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.