Orkumálinn 2024

Falleg hugsun vinaviku hefur áhrif

Vinavikan á Vopnafirði var haldin níunda árið í röð fyrir stuttu. Upplýsingafulltrúi sveitarfélagsins segir verkefnið skila sér með margvíslegum hætti til samfélagsins.


„Fyrsta vinavikan var haldin árið 2010, en það var Sr. Stefán Már Gunnlaugsson sem átti hugmyndina og kom verkefninu af stað. Það er ánægjulegt að geta þess að vinavikan var til kynningar í Reykjavík í apríl 2014. Þar heimsóttu þátttakendur meðal annars Alþingi og tóku þátt í útvarpsmessu undir þeim formerkjum að minna sem fyrr á mikilvægi kærleika og vináttu, sem og til þess að hvetja önnur æskulýðsfélög til að halda vinaviku eða viðburði til að minna á þessi mikilvægu gildi lífsins og samfélagsins. Eins kynntu krakkarnir í æskulýðsfélaginu Kýros með presti sínum vikuna á Landsmóti ÆSKÞ og vöktu mikla athygli,“ segir Magnús Már Þorvaldsson, upplýsingafulltrú Vopnafjarðar.

Kærleiksmaraþon
Ýmislegt var brallað í vinavikunni, meðal annars var farin vinaganga, haldin var leikjaveisla, sundlaugarpartý, vinamessa og kærleiksmaraþon. Allt eru þetta áhugaverðir viðburðir en Magnús Már var sérstaklega spurður út í kærleiksmaraþonið, en í því ganga ungmenni bæjarins í hús, færa íbúum glaðning og bjóða hverjum sem þiggja vill góðverk á borð við að fara út með ruslið, raka saman lauf, fara með hundinn í göngutúr, vaska upp eða hvað annað.

„Kærleiksmaraþonið er skemmtileg hugmynd sem yfirleitt tekst vel. Hún byggist auðvitað á því að íbúar nýti sér vilja krakkanna til góðverka. Er það ekki dásamlegt að mæta brosandi andlitum ungmenna þegar dyrnar eru opnaðar og þiggja af þeim góðverk, jafnvel brosið og gott boð ætti að duga flestum!“

Skilar sér til samfélagsins
Magnús Már segir engan vafa leika á því að vinavikan skili sér með margvíslegum hætti til samfélagsins.

„Þótt öllu jafna séu vopnfirsk börn í engu öðruvísi í háttum en önnur, upp til hópa til fyrirmyndar, þá á sér stað augljós breyting á þeim í viku vina. Ekki einungis vinna þau saman að því að útbúa margvísleg spakmæli mótuð af hlýleika til náungans heldur hefur sú fallega hugsun sem að baki vikunnar býr með óyggjandi hætti áhrif á þau þessa viku.

Höfum í huga að þau elstu taka að fullu þátt í undirbúningi vikunnar, þau stjórna sem dæmi leikjum þeirra yngri og taka hlutverk sitt sem fyrirmyndir alvarlega. Krakkarnir átta sig flest á fegurðinni að baki hugmyndarinnar og glaðbeittir taka þeir þátt í þeim viðburðum sem vikan felur í sér. Auðvitað finnst þeim sumum málin geta verið svolítið snúin því ekki er sjálfgefið að allir séu vinir. Það að reyna, leggja sig fram um að sýna þeim sem eru ekki endilega í vinahópnum betri hliðina mun aldrei gera þeim annað en gott og reynsla vikunnar fylgir þeim svo áfram inn í þá næstu og áfram.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.