Fagradal verður lokað vegna snjóflóðahættu

Veginum yfir Fagradal verður lokað nú klukkan 22:00 vegna snjóflóðahættu. Gul veðurviðvörun verður í gildi á Austfjörðum fram yfri hádegi á morgun. Snjóbrettafólk hratt af stað flóð í Oddsskarði í morgun.

Gul viðvörun er gengin í gildi fyrir Austfirði og gildir til klukkan 15 á morgun. Á þeim tíma er spáð suðaustan 10-18 m/s með snjókomu eða skafrenningi en norðaustlægari vindi undir morgun.

Færð er farin að spillast á vegum, þæfingur á Jökuldal og milli Djúpavogs og Hafnar. Líklegt er að fjallvegir lokist eftir að þjónustu verður hætt. Þegar hefur verið ákveðið að loka Fagradal í nótt vegna snjóflóðahættu.

Í yfirliti ofanflóðadeildar Veðurstofunnar segir að gangi spá um ákafa snjókomu og skafrenning í hvössum austan- og norðaustanáttum eftir í nótt sé líklegt að snjóflóðahætta aukist mikið á Austfjörðum. Snjósöfnun gæti orðið yfir 1 metri þar sem snjórinn sest.

Ólíklegt er talið að hætta skapist í byggð en sérfræðingar Veðurstofunnar eru á vakt. Útivistarfólki er bent á að fara varlega næstu daga, einkum í og undir bröttum brekkum, því hætt er við að nýi snjórinn verði óstöðugur eftir að veðrinu slotar. Spáð er hlýnandi veðri með rigningu í lok vikunnar og þá er líklegt að náttúruleg flóð falli.

Snjóbrettafólk í Oddsskarði setti af stað flekaflóð ofan við munna gömlu Oddsskarðganganna í dag. Eins féllu litlar spýjur undan klettum í sólskini við Seyðisfjörð.

Snjóflóðið í Oddsskarði í dag. Mynd: Veðurstofa Ísland

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.