Fagradal lokað

Veginum yfir Fagradal var lokað um klukkan hálf tíu í morgun og ákveðið hefur verið að bíða með snjómokstur yfir Fjarðarheiði. Reynt er að opna yfir Vatnsskarð til Borgarfjarðar.

Þótt svartsýnustu veðurspár hafi ekki enn gengið eftir tók færð á austfirskum vegum að spillast verulega þegar leið á gærdaginn. Snjórinn er laus eftir mikla ofankomu og þarf því ekki mikinn vind til að hann skafi í milli ruðninga og valdi ófærð. Veðrið tók svo að versna á svæðinu um klukkan níu í morgun.

Fjarðarheiðinni var lokað um klukkan fjögur í gær. Vegfarendur voru þá farnir að lenda í vandræðum með fasta bíla auk þess sem aðstæður voru orðnar erfiðar fyrir snjómoksturstæki. Til stóð að senda tæki af stað í morgun en því var slegið á frest eftir að veðrið versnaði. Vitað er að mikill snjór er víða á heiðinni. Staðan verður endurmetin þegar og ef spár um að veðrinu sloti síðar í dag ganga eftir.

Moksturstæki eru hins vegar á leiðinni að Vatnsskarði og þar stendur til að reyna að opna.

Fagridalur hélst opinn þar til rúmlega níu í morgun að honum var lokað. Staðan þar verður metin eftir hádegi. Hann var metinn þungfær frá í gærkvöldi.

Færð er víða erfið eystra. Þæfingur er í gamla Djúpavogshreppi. Á leiðinni frá Egilsstöðum inn í Hallormsstað er varað við að vegurinn sé einbreiður á kafla en unnið að mokstri. Skafrenningur er á öllum leiðum en moksturstæki víða á ferðinni.

Gul veðurviðvörun fyrir Austfirði tók gildi klukkan níu í gærkvöldi. Eins og fyrr segir hafa verstu veðurspár ekki enn ræst auk þess sem dregið hefur úr bæði vindstyrk og snjókomu í nýrri spám, sérstaklega fyrir Fljótsdalshérað. Veðurspár eru engu að síður þannig að líkur eru á ófærð og því hefur lögreglan beint því til allra sem hyggja á ferðalög að kanna vel færð á vegum hjá Vegagerðinni áður en haldið er af stað.

Mynd: Unnar Erlingsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.