Færeyingar eiga næsta leik

Enn er ósamið um gagnkvæmar veiðar Íslendinga og Færeyinga í lögsögu hvors annars. Tíminn sem er til stefnu styttist því íslensk skip hafa sótt í færeyska lögsögu í upphafi loðnuvertíðar. Í húfi er kolmunnakvóti sem skiptir Austfirðinga töluverðu máli.

„Það var unnið að samningsdrögum og aðilarnir skilja betur hvorn annan. Færeyingar eiga næsta leik og vita alveg hvað við viljum. Annað hvort semja þeir við okkur eða ekki,“ segir Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu.

Tvær vikur eru frá þriðju lotu Íslendinga og Færeyinga um nýjan samning milli ríkjanna um veiðar á loðnu, þorski og kolmunna. Ríkin hafa samið sín á milli allt frá lokum þorskastríðanna árið 1976.

Snurða hljóp á þráðinn í viðræðum í desember í fyrra og var loks gerður bráðabirgðasamningur að undangengnum skilyrðum frá Alþingi.

Jóhann segir að á sama tíma hafi verið ákveðið að breyta fyrirkomulagi samningsins á þann hátt að gerður verði rammasamningur. Síðan eru búnir þrjár samningslotur en enginn samningur liggur fyrir.

Eins hafa íslensk stjórnvöld markað þá stefnu að skipt sé á jöfnum verðmætum. Hráfiskverð þeirra heimilda sem Færeyingar hafa veitt í íslenskri lögsögu eru metnar á um þrjá milljarða króna.

Íslendingar hafa veitt um 90% síns kolmunnakvóta í færeyskri lögsögu undanfarin ár og 85% þess kolmunna sem kemur á land hérlendis er landað á Austfjörðum. Því er ljóst að töluverðir hagsmunir eru í húfi fyrir svæðið að samningar takist.

Í samtali við Austurfrétt ítrekaði Jóhann að kolmunninn væri Íslendingum mikils virði en íslensk stjórnvöld væru ekki til í að borga hvað sem er fyrir samningana. „Við vonum að Færeyingar vinni með okkur og sjái að þetta sé besta leiðin.“

Það samkomulag sem er í gildi rennur út um áramót. Tíminn til samninga styttist því en íslensk skip hafa gjarnan sótt yfir í færeyska lögsögu eftir loðnu í upphafi vertíðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar