Eymundur í Vallanesi tilnefndur til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs

eymundur_vallanesi.jpg

Eymundur Magnússon, bóndi í Vallanesi á Fljótsdalshéraði, var í dag tilnefndur til náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Verðlaunin eru veitt fyrir að efla líffræðilegan fjölbreytileika.

 

Alls eru ellefu aðilar tilnefndir til verðlaunanna og er Eymundur annar tveggja Íslendinga. Í rökstuðningi með tillögunni er bent á að Eymundur hafi, með sínum lífræna búskap undir merkjum Móður jarðar, efnt bæði líf- og mannfræðilegan fjölbreytileika.

„Eymundur Magnússon bóndi í Vallanesi og eigandi fyrirtækisins Móðir jörð ehf. hefur undanfarin 25 ár stundað lífrænan búskap og gróðursett skjólbelti með staðbundnum trjátegundum sem eru grundvöllur vistkerfa þar sem aðrar plöntur þrífast. Hann hefur einnig lagt áherslu á mannlegan fjölbreytileika: ár hvert starfa hjá honum ungir sjálfboðaliðar og mynda þannig alþjóðlegan félagsskap sem er trúr jörðinni og lærir að sýna umhverfi sínu virðingu.“

Tilkynnt verður um hver hlýtur verðlaunin í Osló þann 22. maí á degi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytilega. Þau verða afhent á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki þann 30. október. Verðlaunaféð er 350.000 danskar krónur eða tæpar átta milljónir íslenskar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.