Eydís á Alþingi

Eydís Ásbjörnsdóttir, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð, tók í síðustu viku sæti sem varaþingmaður á Alþingi í fjarveru Loga Einarssonar, oddvita Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.

Eydís, sem starfar í dag sem kennari við Verkmenntaskóla Austurlands, fjallaði um uppbyggingu styttri námsbrauta í verk- og starfsnámi í jómfrúarræðu sinni.

„Tilgangurinn með styttri námsbrautum er að viðurkenna sérhæfingu í vissum verkþáttum innan iðngreina. Með því að auka framboð á lögbundnum styttri námsbrautum í starfsnámi er horft til getu og styrkleika einstaklinga, nám sem hægt er að aðlaga að einstaklingnum sjálfum í tengslum við atvinnulíf og innviði þess samfélags þar sem einstaklingurinn býr eða sækir sér nám.

Ef slíkt nám verður að veruleika mun það án efa koma til móts við þá einstaklinga sem hafa hætt eða fallið úr framhaldsskólum eða hreinlega ekki treyst sér í skóla. Þessir einstaklingar hafa þá möguleika á að klára nám við sitt hæfi, fá það metið á vinnumarkaði og styrkja þannig stöðu sína. Það minnkar líkur á að félagslega kerfið þurfi að grípa þessa einstaklinga,“ sagði hún þar.

Í annarri ræðu fjallaði hún um geðheilbrigðismál og benti á ávísun þeirra væri mest á Norður- og Austurlandi. Eydís sagði að ráðast þyrfti að rótum vanlíðunarinnar frekar en ávísa stöðugt lyfjum. Til þess þyrfti að bæta geðheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

Þá lagði Eydís fram níu fyrirspurnir, meðal annars um auðlindagjald af vindorku, um rafeldsneyti, um rafvæðingu hafna og um skólavist barna á flótta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.