Orkumálinn 2024

Evrópsk kvikmyndahátíð haldin í Herðubreið

Verðlaunahátíð ungra áhorfenda fer fram 25. apríl n.k. í Herðubreið á Seyðisfirði. Hátíðin er haldin samtímis víðvegar um Evrópu eða í hátt í 40 löndum.

Fjallað er um hátíðina á vefsíðu Múlaþings. Þar segir að Evrópska kvikmynda akademían , Kvikmyndamiðstöð Íslands, MM/Sláturhús og Herðubreið Bíó bjóða öllum börnum á aldrinum 12 – 14 ára að taka þátt í kvikmyndahátíðinni sem meðlimir í dómnefnd.
Myndirnar sem verða sýndar á Verðlaunahátíð ungra áhorfenda voru valdar af dómnefnd sem skipuð var fimm krökkum á aldrinum 12 – 14 ára.

"Markmið hátíðarinnar er að bjóða upp á einstakt tækifæri fyrir börn til þess að kynnast evrópskri kvikmyndamenningu og að sýna myndir sem endurspegla raunveruleika ungmenna um alla Evrópu. Eins er stefnt að því að kveikja áhuga barnanna á evrópskum sögum, fólki, menningu og hvetja til samkenndar, skilnings og umburðarlyndis," segir á vefsíðunni.

Hátíðin er fyrir alla krakka á aldrinum 12 – 14 ára og er aðgangur ókeypis. Til að skrá sig er hægt að senda póst með nafni, kennitölu og netfangi á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Tengiliðir hátíðarinnar á Austurlandi eru Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, Herðubreið í samstarfi við Sövu Lóu Stefánsdóttur verkefnastjóra hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Menningarmiðstöðin skipuleggur ferðir frá Egilsstöðum á Seyðisfjörð í tengslum við hátíðina þann 25. apríl og öllum þáttakendum verður boðið upp á hressingu á staðnum.

Myndirnar sem verða sýndar eru:

The Crossing
Árið er 1942, fjórir krakkar eru á flótta. Sara og Daníel hafa þurft að fela sig í kjallaranum hjá vinum sínum Ottó og Gerði vegna uppruna síns. Ef þau finnast verða foreldar Gerðar og Ottós handteknir. Fjórmenningarnir ákveða því að fara í hættuför, flýja þýsku hermennina sem hafa leitað þeirra og fara til Svíþjóðar. Þau lenda í allskonar hættum á leiðinni en fá hjálp úr ýmsum áttum. Myndin er byggð á bók eftir Maja Lunde sem byggir á sannsögulegum atburðum. Leikstjóri: Johanne Helgeland.

Pinocchio
Klassíska sagan um Gosa snýr aftur í nýrri leikinni kvikmynd eftir ítalska leikstjórann Matteo Garrone. Óskarsverðlaunahafinn Roberto Benigni leikur Jafet, gamlan trésmið sem býr til strengjabrúðu úr tré, nefnir hana Gosa og elur upp eins og son sinn. Einn daginn eins og töfrum líkast fer brúðan að tala, ganga, hlaupa og borða eins og hver annar strákur. Gosi á hinsvegar erfitt með að vera prúður og lendir auðveldlega á villigötum. Hann heldur á vit vafasamra ævintýra þar sem hann er meðal annars plataður, honum stolið og hann eltur af ræningjum. Tryggur vinur hans, bláhærða dísin, reynir að fá hann til að sjá að draumur hans um að verða alvöru strákur geti aldrei orðið að veruleika fyrr en Gosi lærir að feta hinn rétta veg.

Wolfwalkers
Lærlingurinn Robyn og veiðimaðurinn faðir hennar halda til Írlands til þess að útrýma síðasta úlfahópnum í landinu. Ferðin tekur óvænta stefnu þegar Robyn vingast við unga stúlku að nafni Meth úr ættflokki sem að sögur herma að breytist í úlfa á nóttunni. Leikstjórar: Tomm Moore og Ross Stewar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.