ESA: Meint lögbrot eins ríkis getur aldrei réttlætt ásetningsbrot annars

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, sendi íslenskum stjórnvöldum bréf í byrjun desembermánaðar til að ítreka að bannað væri að bæta fjölfosfötum í saltfisk. Lítið er gefið fyrir skýringar íslenskra stjórnvalda og framleiðenda á notkun efnanna í bréfi ESA og skýrt er tekið fram að hún sé bönnuð.

 

kalli_sveins.jpgÍ bréfinu kemur fram að ESA hafi hafið sjálfstæða rannsókn á brotum Íslendinga á tilskipun Evrópusambandsins um aukefni í matvælum. Fyrstu viðbrögð Matvælastofnunar (MAST) í apríl 2009 voru fyrirheit um að tilkynna iðnaðinum um að fjölfosfötin væru bönnuð í saltfiski.

Í lok maí 2009 sendi MAST bréf til saltfiskframleiðenda þar sem bannið var brýnt fyrir þeim. Þar segir meðal annars: „Ekki er heimilt að nota fjölfosföt í ferskan eða saltaðan fisk, en heimilt er að nota fjölfosföt í frystan fisk og fiskafurðir. Undantekningalaust er skylt að merkja aukefni ef þau eru notuð.“

Þar lýsir MAST því yfir að frá og með 1. september 2009 verði gengið efir að reglunum verði framfylgt. Í ljósi þessara viðbragða telur ESA málinu lokið í nóvember 2009.

Eftirlitsmönnum ESA virðist hafa verið nokkuð brugðið eftir fréttaflutning Ríkisútvarpsins um miðjan september síðastliðnum þar sem kom fram að starfsmenn MAST vissu af ólöglegri notkun fjölfosfatanna. „Talsmaður MAST staðhæfði í fréttum að MAST myndi ekki fylgja banni við notkun fjölfosfata eftir fyrr en í janúar 2011.“

Fréttaflutningurinn hófst eftir að Karl Sveinsson, útgerðarmaður á Borgarfirði, sagði upp starfsmönnum sínum upp. Hann sagðist ekki lengur geta keppt við aðra saltfiskframleiðendur sem notuðu efnin.

ESA sendi því íslenskum stjórnvöldum fyrirspurn 22. september þar sem spurt var hvort fjölfosföt væru notuð í íslenskum saltfiski og hvort MAST hefði fylgt eftir ákvörðun sinni um að banna efnin eins og stofnunin hafði lofað í apríl 2009.

Íslensk stjórnvöld viðurkenna að framfylgja ekki banninu

Íslendingar svörðu bréfi ESA 1. október. Þar er ítrekuð sú afstaða að MAST fylgi banninu ekki eftir fyrr en í fyrsta lagi í janúar 2011. Í svarinu kemur fram að Samtök fiskvinnslustöðva (SF) hafi farið þess á leit við MAST að banninu yrði frestað fram í janúar 2011 með þá von í brjósti að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi þá tekið fyrir beiðni þeirra um að efnin verði leyfð. Þegar ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar liggi fyrir taki MAST endanlega ákvörðun í samræmi við skyldur Íslands samkvæmt EES sáttmálanum.

Íslendingar benda einnig á að önnur ríki hafi leyft notkun efnanna. Norsk matvælayfirvöld hafi tekið svipaða afstöðu og MAST, Færeyingar hafi ekkert gert og Danir bíði niðurstöðu úrskurðarnefndar Evrópusambandins um aukefni.

Í bréfinu segir að samkvæmt reglum EES sé notkun fjölfosfata í saltfiski bönnuð. Reglugerðin hafi fyrst verið tilsett með tilskipun Evrópusambandsins árið 1995 og hana hafi Íslendingar innleitt að fullu árið 2002 með viðbótum eftir það. Þetta hafi Íslendingar viðurkennt í apríl 2009 og gefið til kynna að þeir myndu framfylgja banninu. Með bréfi sínu í október 2010 hafi íslensk stjórnvöld á móti viðurkennt að þau framfylgdu ekki banninu.

Rökleysa Íslendinga

ESA svarar rökunum sem íslensk stjórnvöld setja fram fyrir aðgerðaleysi sínu. Í fyrsta lagi sé óvíst hvenær nokkur ákvörðun verði tekin um efnin innan ESB og því geti Íslendingar ekki frestað banninu. Bannið sé skýrt í reglum. Að auki er vísað til dóma Evrópudómstólsins um að þótt stofnanir ESB vinni að lagabreytingum hlífi það aðildarríkjunum ekki við því að hlýta þeim reglum sem í gildi eru.

„Hreinar vangaveltur um hugsanlegar breytingar afsaka ekki að reglunum sé ekki fylgt eftir.“ ESA bendir einnig á úrskurða dómsins um að „meint lögbrot eins ríkis geti aldrei réttlætt ásetningsbrot annars.“

ESA kemst að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hafi ekki staðið undir þeim skuldbindingum sem þeim ber að gera. Í bréfinu 1. desember er Íslendingum gefinn tíu daga frestur til aðgerða. ESA telur þennan stutta frest réttlætanlegan þar sem íslenska ríkisstjórnin hafi viðurkennt að efnin séu bönnuð og opinberlega viðurkennt að banninu hafi ekki verið fylgt eftir. Frekari aðgerðum, svo sem að skjóta málinu til EFTA dómstólsins, er heitið bregðist íslensk stjórnvöld ekki við.

Nánar er fjallað um málið í Austurglugganum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.