„Erum ekki hér á Reyðarfirði að ástæðulausu“

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar vonast til að uppbygging orkugarðs á Reyðarfirði skapi þar fjölbreytt störf. Forstöðumaður hjá Landsvirkjun segir þar kjöraðstæður til uppbyggingarinnar. Tækifæri felist í orkuskiptum sem séu að verða hraðar en margir hafi reiknað með.

Fjarðabyggð, Landsvirkjun og danski fjárfestingasjóðurinn CIP undirrituðu í sumar viljayfirlýsingu um uppbyggingu græns orkugarðs á Reyðarfirði.

Vetnisframleiðsla er grunnur orkugarðsins. Vetnið er framleitt með að kljúfa vatn með rafmagni í frumefni sín, annars vegar vatn, hins vegar súrefni. Vetnið nýtist sem eldsneyti en búist er við að það gegni lykilhlutverki við orkuskipti í flutningum, sjávarútvegi og flugi.

Hugsunin að baki grænu orkugörðunum er hringrásarhagkerfið þannig að orkan sé fullnýtt. Þannig er horft til þess að súrefnið geti nýst, til dæmis við eldi á fiskum eða seiðum á landi. Eins verður til varmi sem er nægur til að hita upp Reyðarfjörð og nota í iðnstarfsemi.

Kjöraðstæður á Reyðarfirði

Grænu orkugarðarnir voru kynntir á íbúafundi á Reyðarfirði í gærkvöldi. Þar töluðu fulltrúar frá Landsvirkjun og Fjarðabyggð. Kynningar þeirra snéru almennt að hugmyndafræði verkefnisins, til dæmis hvað rafeldsneyti sé, hvernig það verði notað og möguleikum orkugarðsins frekar en naglföstum aðgerðum eins og nákvæmlega var garðarnir verði, hvenær þeir taki til starfa, hversu mörg störf skapist eða slíkt.

Haraldur Hallgrímsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, sagði mikinn áhuga og áherslu á vetnisframleiðslu innan fyrirtækisins. Hann bætti við að um nokkurn tíma hefði verið horft eftir mögulegri staðsetningu fyrir fyrstu orkugarðana og víða verið leitað. „Það liggur vinna að baki því að skoða mögulegar staðsetningar. Við erum ekki hér í kvöld að ástæðulausu,“ sagði hann.

„Hér eru góðar aðstæður til að framleiða rafeldsneyti. Innviðir fyrir bæði raforku og flutningaskip eru sterkir. Það er mikilvægt að í stórum verkefnum sé samfélagið vel samstillt og hafi áhuga á þeim. Hér er reynsla af stóru verkefni. Þið kunnið að vinna með svona fyrirtæki. Þegar eru til öflug fyrirtæki sem hafa áhuga á þessum tækifærum,“ sagði hann.

Frekari tíðindi fljótlega

Bæði Haraldur og Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, lögðu áherslu á að frekari tíðinda væri að vænta fljótlega. „Við viljum vinna eins hratt og við getum þannig vonandi getum við sagt frá næstu skrefum fljótlega. Ég á von að þetta sé bara fyrsti fundurinn af fleirum. Jafnvel undirritum við viljayfirlýsingu um nýtingu á því sem til fellur við framleiðsluna strax í næstu viku,“ sagði Jón Björn.

Jón Björn kvaðst vonast til að orkugarðarnir verði til að efla atvinnulíf í Fjarðabyggð. „Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur alltaf verið einhuga um að vilja hafa hér fjölbreytta atvinnu og við erum sammála um að þetta verði mikið framfaraskref. Við teljum að hér verði til fjölbreytt og góð störf. Tækifærin eru ótrúlega mörg og það er okkar að fanga þau.“

Haraldur sagði mikilvægt að hafa öfluga samstarfsaðila með í fyrstu skrefunum við orkugarðinn. Það er CIP sem fjármagnar verkefnið. CIP er að hluta í eigu danskra lífeyrissjóða og hefur fjárfest í verkefnum um endurnýjanlega orku víða um heim.

„Það er að okkar mati sterkt og spennandi fyrirtæki sem hefur verið leiðandi í heiminum við að fjármagna græna orkuvinnslu. Það hefur djúpa þekkingu og getu til að byggja upp ný verkefni,“ sagði Haraldur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.