„Erum að koma kennitölu á verkefnið“

Samningar um stofnun fyrirtækja um þróun stórskipahafnar í Finnafirði eru á lokastigi þótt ekki liggi enn fyrir hvenær þeir verði undirritaðir.

Sveitarstjórar Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps hittust á vinnufundi á Bakkafirði í byrjun árs ásamt lögfræðingi fyrrnefnda sveitarfélagsins. Afrakstur fundarins var síðan kynntur fyrir sveitarstjórnum beggja.

Í bókun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps er lýst yfir ánægju með stöðu mála og sveitarstjóra veitt heimild til að vinna málið áfram. Sveitarstjórnin taki samningana síðan aftur fyrir þegar þeir verða endanlega búnir.

„Við nýttum þennan vinnufund til að fara yfir samningsdrögin. Einn samningurinn en stærri og við erum að klára hann og aðra sem standa út af,“ segir Þór Steinarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps.

„Það er verið að koma kennitölu á verkefnið. Menn gera ekkert af viti fyrr en hún er komin. Þá taka við næstu skref,“ segir hann. Aðspurður sagði hann að engin dagsetning væri komin á undirritun samninganna.

Auk sveitarfélaganna tveggja hafa verkfræðistofan Efla og þýska hafnarfyrirtækið Bremenports komið að áformum um höfnina í Finnafirði. Til stendur að stofna tvö hlutarfélög, annars vegar þróunarfélag sem sér um kynningu og markaðssetningu, hins vegar hafnarsamlag. Talsmenn Bremenports sögðust í haust vonast til að félögin yrðu stofnuð fyrir nýliðin áramót.

Í nóvember hlaut Langanesbyggð átján milljón króna styrk til að stofna félögin. Styrkurinn kom frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í gegnum Eyþing á grundvelli byggðaáætlunar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.