Orkumálinn 2024

Eru að reyna að tryggja framtíð sauðfjárræktar

Sláturfélag Vopnfirðinga tilkynnti í vikunni um rúmlega 31% hækkun á afurðaverði til bænda samanborið við síðasta ár. Framkvæmdastjóri Sláturfélagsins segir félagið vilja koma í veg fyrir hrun í greininni sem hefði í för með sér alvarlegar afleiðingar.

„Þetta er þung ákvörðun fyrir Sláturfélagið en hún er hugsuð til að styrkja bændur þannig að sauðfjárbúskapur haldi áfram.

Það hefur verið undirliggjandi umræða nánast frá áramótum að ef ekki komi til aukinn stuðningur ríkisins né hækkun afurðastöðva þá hætti fimmtungur sauðfjárbænda í haust og annað eins næsta ár. Þá verður ekki mikið eftir, fyrir utan dómínó-áhrifin sem orðið geta af þeim sem hætta,“ segir Skúli Þórðarson, framkvæmdastjóri Sláturfélags Vopnfirðinga.

Bændur vonast til að aðrar stöðvar fylgi á eftir

Hækkun Sláturfélagsins nemur 31,4% sé miðað við lokaverð síðasta hausts eða 173 kr/kg, samkvæmt útreikningum Bændasamtaka Íslands. Forsvarsfólk sauðfjárbænda hefur fagnað ákvörðuninni. Í samtali við Bændablaðið sagði Trausti Hjálmarsson, formaður deildar sauðfjárbænda innan Bændasamtakanna, að með hækkun Sláturfélagsins auk viðbótarstuðningi ríkisins geti sauðfjárbændur haldið sjó milli ára.

Hann segist þar vonast til að aðrar afurðastöðvar fylgi í kjölfarið. Sláturfélag Suðurlands hafði áður tilkynnt um 18,4% hækkun. Norðlenska-Kjarnafæði tilkynnti í byrjun árs um að minnsta kosti 10% hækkun en uppfærðrar verðskrár er að vænta frá fyrirtækinu á næstunni. Þá segir í nýjasta fréttabréfi Kjötafurðastöðvar KS að afurðastöðvar KS og SKVH muni leitast við að greiða hæsta afurðastöðvaverðið á næstu sláturtíð.

Á Vopnafirði er að jafnaði slátrað 27-30 þúsund fjár á hverju ári eða um 7-8% af heildarsauðfjárslátrun landsins. Langmest af framleiðslunni er selt til Kjarnafæðis. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.